Sep 1, 2011

Bleikja í Eyjafirði - rannsóknaráætlun


 Allt fyrir vísindin - ég hef ákveðið að nördast aðeins og rannsaka bleikjuna í Eyjafirði næstu árin.  Verkefnið er reyndar löngu hafið, en nú hef ég sagt upp í vinnunni og legg stund á nám og rannsóknir næstu árin.  
Það eru forréttindi að geta leyft sér slíkt.

Bleikja í Eyjafirði - rannsóknaráætlun

Inngangur

Lax- og silungur hefur verið nytjaður hér á landi frá landnámi, fyrst sem matarkista en síðustu áratugi sem stangveiðisport.  Óhætt er að flokka þessa fiskistofna sem verulega verðmæta náttúruauðlind enda voru bein, óbein og afleidd áhrif stangveiða á laxi og silungi á þjóðarbúið metin árið 2004 á allt að 9 milljarða, og aftur árið 2009 á 15 milljarða.  Stærstur hluti þess er vegna laxveiði enda eru laxveiðileyfi mun dýrari en silungsveiðileyfi og þeim fylgir hærra þjónustustig.  Náttúrulegar laxveiðiár eru að mestu fullnýttar og því vart meiri vaxtar að vænta þar.  Margar silungsveiðiár eru vannýttar og hefur talsverður vöxtur hefur verið í sölu á silungsveiði til erlendra veiðimanna síðustu árin.  Nýting í silungsveiðiám við Eyjafjörð er  að meðaltali um 40% sem þýðir að allt að 3.000 veiðidagar eru óseldir á svæðinu ár hvert. Ef miðað er við að allir þeir dagar væru seldir til veiðimanna utan svæðis, að jafnan væru tveir um stöng, veiðimenn keyptu gistingu í eina nótt fyrir hvern veiðidag og stór hluti þeirra nýtti sér leiðsögn,  gætu tekjur numið 100-200 milljónum ár hver.  Ónýtt sóknarfæri virðast því vera í þessum geira ferðaþjónustu og ekki hvað síst á Eyjafjarðarsvæðinu.  Skv. könnun frá árinu 2004 var hlutfall íslenskra stangveiðimanna í hópi einstaklinga á aldrinum 18-69 ára 31,5% samanborið við 50% í Noregi.  Hækki hlutfall íslenskra stangveiðimanna á næstu árum, auk meiri sóknar erlendis frá, mun það koma fram í aukinni sókn í silung.


Mynd 1 Veiðitölur bleikju í Eyjafirði 1990-2011 (Guðbergsson, 2011)
En aukinni sókn getur hinsvegar fylgt hætta á ofveiði.  Eyjafjarðará var ein aflahæsta bleikjuveiðiá Íslands á árunum 1997-2005 og seldust veiðileyfi hennar upp með góðum fyrirvara á þeim árum.  Upp úr  2005 varð óútskýrt hrun á veiði í ánni sem leiddi til hruns í sókn veiðimanna í hana.  Þar sem ekki varð sambærilegt hrun í öðrum ám á Eyjafjarðarsvæðinu var talið hugsanlegt að um ofveiði hafi verið að ræða.
Mynd 2 Veiðitölur urriða í Eyjafirði 1990-2011 (Guðbergsson, 2011)
Ýmsar vísbendingar eru þó um að hrun bleikjustofnsins gæti átt sér aðrar eða  fleiri orsakir en ofveiði.   Á sama tíma og bleikjunni fækkar í Eyjafjarðará,  fjölgar urriðanum.   Kjörhiti bleikju er heldur lægri en kjörhiti urriða og gæti þetta því verið vísbending um breyttar umhverfisaðstæður, þ.e. að hitastig hafi hækkað.  Áhrif hækkandi vatnshita á stofnstærð bleikju gætu verið bein; þannig að við hærri hita verði afkoma hennar lakari,  eða óbein; þannig að við hærri hita fjölgar urriða og í samkeppni við bleikju um búsvæði og fæðu hefur urriðinn betur.

Veiðihlutfall í laxveiði,  miðað við sambærilega sókn[1] (þ.e. sambærilegan fjölda veiðidaga),  er gjarnan talið um 60-70%, og er það að mestu óháð stærð fiskistofns eða vatnsfalls.  Ef stofninn fer minnkandi (burtséð frá orsökum) og við gefum okkur að veiðihlutfallið bleikju  sé einnig nánast fasti,  þá magnar veiðin niðursveifluna og hugsanlega það mikið að komið er niður fyrir sjálfbærnimörk.    Þá verður að setja á kvóta á afla[2],  þ.e. takmarka dráp á fiski af völdum veiða.
Í Eyjafjarðará hefur verið brugðist við minnkandi veiði með kvótasetningu, þannig að afli er takmarkaður en veiðar eru áfram ótakmarkaðar í magni (ekki er takmarkað hvað má veiða&sleppa af fiski) og sókn er óbreytt.  Lítið hefur verið rannsakað hvaða áhrif veiða&sleppa fyrirkomulag hefur í bleikju, þ.e. á lifun,  en víða hefur það gefið góða raun við veiðistjórnun á laxi og urriða.  Vatnshiti og tími frá sjógöngu eru þættir sem hafa áhrif á lifun við veiða og sleppa.  Mögulegt er að rannsaka lifun með því að merkja fisk sem sleppt er og virðist lifun bleikju af merkingum vera svipuð og hjá laxi og urriða. Einhverjum kann að virðast það undarlegt að veiðimenn borgi fyrir að fá að veiða fisk til þess eins að sleppa honum aftur,  en stangveiðimenning, líkt og önnur menning er margbreytileg.
Afar mikilvægt er að rannsókn fari fram á nýtingarmöguleikum, veiðistjórnunaraðferðum og veiðiþoli svæða áður en sókn eykst.  Niðurstöður slíkrar rannsóknar gætu varpað ljósi á hrunið í Eyjafjarðará og verið öðrum leiðarljós við skipulag nýtingar veiðisvæða sinna.  Mjög mikilvægt er að átta sig á orsökum og afleiðingum þessa aflabrests, til að slíkt endurtaki sig ekki.  Mörg ár getur tekið að byggja upp veiðistofn og þá tekur einhver ár að fá veiðimenn til að sækja svæðið aftur.
Stærstu spurningar sem þarf að svara í þessu samhengi,  eru þá hvort orsök minnkandi bleikjustofns sé vegna umhverfisþátta svo sem hitastigs eða vegna aukinnar sóknar? Óháð orsökum minnkandi bleikjustofns þarf svo að svara hvaða áhrif veiðistjórnunaraðferðin veiða&sleppa hefur á bleikjustofninn.


Rannsóknarspurningar og tilgátur

Rannsóknarspurning 1:  Eru tengsl í Eyjafjarðará á milli stofnstærðar bleikju og vatnshita?  

Tilgátan er sú að breytingar á vatnshita á einhverjum tíma árs geti haft áhrif á stofnsstærð bleikju,  beint eða óbeint.   Þannig gæti t.d. hækkun á hita snemma að vori eða seint að hausti haft neikvæð áhrif á hrygningu og/eða klak bleikju.  Á hinn bóginn gæti þessi sama hækkun haft jákvæð áhrif á hrygningu og/eða klak urriða sem í samkeppni getur svo haft neikvæð áhrif á vaxtarmöguleika bleikjuseiða.

Rannsóknarspurning 2: Er veiða og sleppa raunhæf aðferð til veiðistjórnunar á sjóbleikju í Eyjafjarðará? 

Tilgátan er sú að hægt sé að nota veiða og sleppa sem veiðistjórnunaraðferð á sjóbleikju  Eyjafjarðará, þ.e. að afföll vegna veiða og sleppa séu ásættanleg.  Rannsóknir á veiða&sleppa í laxi og urriða benda til að lifun sé allt að 90%,  en ekki er þekkt hver lifun er hjá bleikju.

Aðferðafræði

            Rannsóknarsnið (study design)

Fyrri hlutinn verður lýsandi samanburðarrannsókn þar sem fyrirliggjandi veiðitölur eru úrtakið og þýðið er þá stofnstærðin.  Veiðitölurnar eru þá háða breytan, fengnar úr gagnagrunni veiðimálastofnunar en lofthitatölur á Torfum við Eyjafjörð, fengnar úr gagnagrunni veðurstofu Íslands eru óháða breytan. Þótt jafnan sé talið að vatnshiti fylgi lofthita er jafnframt safnað vatnshitamælingum á tveimur stöðum við ánna í 3 ár til að kvarða áhrif lofthita á vatnshita.   Notuð eru gögn síðustu 25 ára og verður beitt tímaraðargreiningu á gögnin til að meta áhrif á hitastigs á stofnstærð með sundurliðun líkansins  X(t)=T*C*S*I og beitt lnT=b0+b1t  eða  T=exp(b0)*exp(b1t) eða T=exp(b0+b1t).  Úrvinnsla verður í excel.  Niðurstöður verða tilbúnar til birtingar í tímaritsgrein í maí 2013.
Seinni hlutinn er slembuð samanburðarrannsókn þar sem áhrif veiða og sleppa eru metin.  Merktir eru 500 fiskar árlega í tveimur 250 fiska hópum, þar sem annar hópurinn er veiddur á stöng jafnt og þétt yfir veiðitímabilið, merktur og sleppt en hinn hópurinn er veiddur í net í lok tímabilsins og merktur og svo sleppt.  Árið eftir fást svo upplýsingar um endurheimtur frá stangveiðimönnum, útfrá þeim er hægt að meta áhrif veiðiaðferðar, vatnshita og tíma sumars á lifun bleikjunnar.

                        Tímaáætlun

Árið 2008 var hafist handa við merkja fisk í Eyjafjarðará, því mun liggja fyrir í lok september  2012 fjögurra ára sería um veiða&sleppa.  Unnið verður með þau gögn í október til desember 2012 og verður uppkast að tímaritsgrein um þann þátt verkefnisins tilbúið í janúarbyrjun 2013.
Í janúar 2013 líkur söfnun hitamælinga í Eyjafjarðará, þá verður hafist handa við að vinna úr fyrirliggjandi hita- og veiðitölugögnum.  Uppkast að tímaritsgrein um þann þátt verður tilbúið í lok apríl 2013.
Í maí 2013 verða svo báðar tímaritsgreinarnar tilbúnar til birtingar.Heimildaskrá


Alun, S. G., & Milner, N. (1980). Analysis of 70-years catch statistics for atlandic salmon in the river wye and implications for management of stock. Journal of applied ecology, 41-57.
Barnes, R., & Mann, K. (1988). Fundamental of Aquatic Systems. Oxford: Blackwall scientific publications.
Benjamínsson, J. G. (05. maí 2010). (E. Steinar, Spyrill)
Dempson, J., Fuery, G., & Bloom, M. (2002). Effects of catch and release angling on Atlantic salmon, Salmo salar L., of the Conne River,Newfoundland. Fisheries Management and Ecology,, 139-147.
Einarsson, S. M. (2004). Líffræði og nýting ferskvatnsfiska á vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði. Ársskýrsla veiðimálastofnunar 2003. Reykjavík: Veiðimálastofnun.
Elliott, J., & Elliott, J. (2010). Temperature requirements of Atlantic salmon Salmo salar, brown trout Salmo trutta and Arctic charr Salvelinusalpinus: predicting the effects of climate change. 77(8).
Gíslason, J. B. (2010). Arðsemismat á gerð fiskvegar í bleikjuveiðiá í Eyjafirði. Akureyri: Háskólinn á Akureyri.
Guðbergsson, G. (2011). Lax- og silungsveiðin 2010. Reykjavík: Veiðimálastofnun.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. (2004). Lax- og silungsveiði á Íslandi. efnahagsleg áhrif. Reykjavík: Háskóli Íslands.
Klemetsen, A., Amundsen, P.-A., Dempson, J., Jonsson, B., Jonsson, N., O´Connel, M., & Mortensen, E. (2003). Atlantic salmon Salmo salar L., brown trout Salmo trutta L. and Arctic charr Salvelinus alpinus (L.): a review of aspects of their life histories. Ecology of Freshwater Fish, 1-59.
Lamberti, R. H. (2006). Methods in Stream Ecology.
Moss, B. (2010). Ecology of freshwaters. West sussex: Wiley-Blackwell.
Randall, M., & Gregory , J. (1981). Relation Between Sport-Fishing Catchability Coefficients and Salmon Abundance. Transactions of the American Fisheries Society, 585-593.
Rist, S. (1990). Vatns er þörf. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Steinsson, S. (2010). Stangaveiðimarkaðurinn á Íslandi : mat á heildartekjum af laxveiðileyfasölu árið 2009. Bifröst: Háskólinn á Bifröst.
Strand, R., Finstad, B., Lamberg, A., & Heggberget, T. (2002). The effect of Carlin tags on survival and growth of anadromous Arctic charr, Salvelinus alpinus. Environmental Biology of Fishes, 275–280.
Tufts, B., Davidson, K., & Bielak, A. (1997). Biological Implications of "Catch and Release" Angling of Atlantic Salmon. 5th International Atlantic Salmon Symposium, (bls. 196-201). Galway: Managing Wild Atlantic Salmon: New Challenges, New Techniques.[1] Sókn er heildarfjöldi notaðra veiðidaga yfir ákveðið tímabil.  Gjarnan er talað um fjölda nýttra stangardaga. 
[2] Með afla er átt við þann fisk sem er drepinn, en með veiði er átt við allan landaðan fisk, slepptan og drepinn.  

No comments:

Post a Comment