Apr 9, 2015

Umfang og áhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis á norskum laxi á Eyjafirði

Fyrirhugað er umfangsmikið sjókvíaeldi á norskum laxi á Eyjafirði, rétt norðan Hörgárósa 1.  Þar á að setja í kvíar 2,4 milljónir laxaseiða af norskum stofni og ala í tvö og hálft ár.  Af þessum 2,4 milljónum laxa má reikna með að 2.400 sleppi árlega og syndi í nær- og fjærliggjandi ár. Til samanburðar var meðalveiðin á laxi í Fnjóska síðustu 10 árin tæpir 500 laxar.
Svæðið sem um ræðir er 3 km langt og 1,2 km breitt, eða um 3,5 ferkílómetrar, það eru rúm 5% af flatar-máli Eyjafjarðar frá Hjalteyri að ósi Eyjafjarðarár.  Það er svæði á stærð við Pollinn frá Leirubrú og norður í slipp.  Frá fyrirhugaðri staðsetningu eru aðeins 2 km að ósi Hörgár, 6 km að Fnjóská og 15 km að Eyjafjarðará.   
Umhverfisunnendur, náttúruverndarsinnar, stangveiðimenn, veiðifélög, veiðiréttarhafar, smábátasjómenn og margir fleiri hafa lýst áhyggjum sínum af þessum fyrirætlunum.  
Stundum er farið af meira kappi en forsjá í ýmsar framkvæmir, margar í nafni byggðaþróunar og/eða uppbyggingar atvinnutækifæra, án þess að mögulegar neikvæðar afleiðingar séu skoðaðar til hlítar. 
Í þessu tilviki er sótt að villtri sjálfbærri náttúru landsins – ferskvatnsfiskunum; laxi, urriða og bleikju. Fjórðungur þjóðarinnar eða 70.000 Íslendingar stunda stangveiðar á hverju ári 2 - að þeim sjálfsögðu búsetutengdu lífsgæðum er nú sótt.  Ein elsta stoð íslenskrar ferðaþjónustu og sennilega sú best borgandi - stangveiðiferðamennska byggir á þessari auðlind,  þar eru 1.000 störf og 20 milljarða árleg velta, að þeim er nú sótt.

Ekki þarf mikla leit til að finna fjölmargar greinar fræðimanna og skýrslur stjórnvalda í  Noregi, Skotlandi, Síle og Kanada af neikvæðum umhverfisáhrifum eldisins.  Norska ríkisendurskoðunin bendir3 að markmið um sjálfbærni og umhverfisvernd í tengslum við fiskeldið hafi ekki náðst.  Þar sé helst að nefna; neikvæð áhrif eldis á villta stofna vegna erfðablöndunar, sjúkdóma og laxalúsar, lífræn og ólífræn mengun frá eldinu hafi neikvæð áhrif á vistkerfin og að frekari vöxtur fiskeldis viðhaldi miklu veiðiálagi á stofna sem veiddir eru til fóðurgerðar.  Norska Hafró og norska Náttúrufræði-stofnunin uppfærðu nýlega sameiginlegt áhættumat á umhverfisáhrifum norsks laxeldis4.  Þar kemur fram að stór hluti þeirra villtu laxa- og sjóbirtingsstofna sem rannsakaður var, er í nokkurri eða mikilli hættu vegna erfðamengunar, laxalúsar eða sjúkdóma frá laxeldi. 

Nánar um áhrif sjókvíaeldis á norskum laxi
1.       Erfðablöndun: 
Eldislax (Norskur kynbættur/erfðabreyttur) sleppur úr kvíum, gengur upp í ár og blandast þar við náttúrulegan stofn og rýrir afkomumöguleika hans.  
Reynsla Norðmanna sýnir að um 0,1% af eldislaxi sleppur og stór hluti hans syndir upp í ár til hrygningar.
3,5 Eldislaxinn getur synt allt að 2.000 km áður en hann leitar upp í ár til að hrygna5.
Ágætt að hafa í huga að íslenski laxastofninn hefur verið hér í 11.000 ár og sérhæft sig í íslenskum aðstæðum.  Á sama hátt hefur norskur lax sérhæft sig að norskum aðstæðum í svipað langan tíma. Þannig að villtu stofnarnir eru mjög ólíkir.  Norski eldisstofninn sem um ræðir er kynbættur og sérhæfður til að vaxa hratt á stuttum tíma - ekki ósvipað kjúkling í kjúklingarækt.  Þegar blöndum á slíkum stofni við náttúrulegan á sér stað verða afkvæmin vanhæfari í lífsbaráttunni, afföll aukast og lífsferlar raskast.
5,6  Blöndun til langs tíma gefur af sér nýjan stofn með rýrari afkomumöguleika.  Þess má geta að íslenskir bændur hafa ítrekað hafnað innflutningi á norskum kúastofni til blöndunar við þann íslenska, þar sem sú blöndun hefði óáæskileg áhrif.  Þó er þar um ræktuð húsdýr að ræða en ekki villtan sjálfbæran stofn.
Og hvað segir það okkur að í Noregi má aðeins ala norskan lax í sjókvíum?  
2.       Laxalús: 
Eldisfiskur er í miklum þéttleika sjókvíum  - við slíkar aðstæður nær laxalús sér vel á strik og sest jafnt á eldisfiskinn sem á villtan göngufisk á svæðinu. 
Laxalús er til staðar í náttúrlegu umhverfi laxfiska, en í svo litlum mæli að hún veldur litlum sem engum afföllum.  Lúsin er sníkjudýr og þarf kvendýrið á hýsli að halda til að ljúka þroskun eggja.  Á fiskinum nærir hún sig á húðfrumum, slími og blóði.  Lúsin getið valdið miklum afföllum á villtum fiski, hamlað vexti hans og fæðunámi i sjó, breytt gönguhegðun og ruglað ýmis lífeðlisfræðileg kerfi fisksins.  Talið er að afföll vegna lúsar á náttúrlegum laxaseiðum og urriða sem fer um eldissvæði geti verið allt að 50%.  Einnig er þekkt að lúsin leggst á bleikju í sjó og jafnvel í meira mæli en á urriða eða lax 7.  Í sjókvíaeldi er fiskur allan ársins hring og þéttleikinn jafnan mikill, þar eru því kjöraðstæður fyrir lúsina enda magnast þéttleiki lúsarinnar þar gríðarlega.  Áhrifa lúsarinnar gætir mest innan 30 km frá kvíunum en undan straumum getur hún borist í allt að 100 km 8.  Lúsin leggst svo á villtan fisk sem syndir um útbreiðslusvæðið.   
3.       Sjúkdómar og sníkjudýr:
Fiskur í kvíum er í miklum þéttleika - þar geta blossað upp sjúkdómar sem smitast getast í villtan fisk.  Slíkt getur haft neikvæð varanleg áhrif á náttúrulega fiskistofna, aðallega lax, bleikju og urriða.  Mesta hættan er af innflutningi lifandi seiða eða með búnaði erlendis frá.  
4.       Lífrænn úrgangur frá eldinu:
Fóðurleifar, saur og þvag;  Getur haft áhrif á botndýralíf og borist með straumum inn fjörð.   Við útreikning á burðarmati svæða má nota norsk viðmið;  LENKA-aðferð
9 þar sem firðir bera við bestu aðstæður 9.000 kg/km2 ákomu af N2 (köfnunarefni ) á ári og skv. nýlegri norskri úttekt 10 er árleg losun N2 á hvert framleitt tonn af laxi um 50 kg.    Það þýðir að Eyjafjörður innan við Hjalteyri (60 km2) ber um 540 tonna ákomu af N2 á ári.  Frá því þarf svo að draga ákomu N2 vegna núverandi byggðar (200 t) , atvinnustarfsemi (100 t) og framburði ársvæða (100 t) 11.  Eftir stendur því svigrúm upp á 140 t af N2 á ári sem jafngildir tæplega 3.000 tonna árlegri framleiðslu af laxi.  
5.       Ólífrænn úrgangur frá eldinu:
 Lyf, eiturefni, þvottaefni o.fl.;  Þungmálmar og ýmis óæskileg ólífræn efni geta borist úr búnaði, fóðri, með lyfjagjöf, við lúsaböðun eða við þvott og hreinsun á búnaði og fiski
11.  Slíkt getur haft áhrif á botndýralíf, borist með straumum inn fjörð. 
6.       Notkun á stórum svæðum sjávar:
Stór svæði eru upptekin svo ekki verður hægt að stunda þar atvinnuveiðar, sportveiðar, hvalaskoðun eða fara í svartfugl. 
Fyrirhugaði eldissvæði er við Bakkál sem er velþekkt og gjöful veiðislóð smábáta í firðinum. 


1. Jón Örn Pálsson. Tillaga að matsáætlun fyrir 8.000 laxeldi (í) á eyjafirði (drög). [Laxeldi]. 2015.
2. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Lax- og silungsveiði á íslandi –  Efnahagsleg áhrif  . . 2004;C04:06.
http://www.angling.is/files/Skra_0006067.pdf

3. Fiskeridirektoratet. Andel rømt oppdrettslaks i ville gytebestander
Tap av laks, regnbueørret og ørret i produksjonen etter art og fylke. antall i 1000 stk.
http://www.fiskeridir.no/akvakultur/roemming/andel-roemt-oppdrettslaks-i-ville-gytebestander. Updated 2015.
4. Taranger GL, Karlsen Ø, Bannister RJ, et al. Risk assessment of the environmental impact of norwegian atlantic salmon farming. ICES Journal of Marine Science: Journal du Conseil. 2014.
http://icesjms.oxfordjournals.org/content/early/2014/09/02/icesjms.fsu132.full.pdf

5. McGinnity P, Prodöhl P, Ferguson A, et al. Fitness reduction and potential extinction of wild populations of atlantic salmon, salmo salar, as a result of interactions with escaped farm salmon. Proceedings of the Royal Society of London Series B: Biological Sciences. 2003;270(1532):2443-2450.
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC1691531/pdf/14667333.pdf

6. Hindar K, Fleming IA, McGinnity P, Diserud O. Genetic and ecological effects of salmon farming on wild salmon: Modelling from experimental results. ICES Journal of Marine Science: Journal du Conseil. 2006;63(7):1234-1247.
http://icesjms.oxfordjournals.org/content/63/7/1234.full.pdf

7. Bjørn PA, Finstad B, Kristoffersen R. Salmon lice infection of wild sea trout and arctic char in marine and freshwaters: The effects of salmon farms. Aquacult Res. 2001;32(12):947-962.
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1046/j.1365-2109.2001.00627.x/epdf

8. Thorstad EB, Todd CD, Bjørn PA, et al. Effects of salmon lice on sea trout - a literature review. [Salmon lice – Lepeophtheirus salmonis – parasite – infestation Sea trout – Salmo trutta – anadromous salmonid Literature review – knowledge status Aquaculture – salmon farming – fish farming Life history – marine migration Phys(TRUNCATED)]. 2014;NINA Report 1044, 1-162.
http://www.nina.no/archive/nina/PppBasePdf/rapport%5C2014%5C1044.pdf

9. Ibrekk HO, Kryvi H, Elvestad S. Nationwide assessment of the suitability of the norwegian coastal zone and rivers for aquaculture (LENKA). Coast Manage. 1993;21(1):53-73.
10. Wang X, Olsen LM, Reitan KI, Olsen Y. Discharge of nutrient wastes from salmon farms: Environmental effects, and potential for integrated multi-trophic aquaculture. Aquacult Environ Interact. 2012;2(3):267-283.
11. Björgvin Harri Bjarnason. Reyðarlax - allt að 6000 tonna laxeldisstöð í reyðarfirði mat á umhverfisáhrifum. . 2002.


No comments:

Post a Comment