Apr 24, 2015

Hrollvekjandi hugmyndir

Það setti að mér hroll þegar ég sá um daginn, auglýsinguna um fyrirhugað eldi á norskættuðum laxi í sjókvíum á Eyjafirði, rétt norðan Hörgárósa.

Af því mér varð hugsað til allrar bleikjunnar og sjóbirtingsins sem lúsin í eldinu dræpi.  Hún dræpi kannski ekki alla bleikjuna og birtingin en sennilega allt að helming.  (Ef marka má norskar rannsóknir)

Og ekki var skárra að sjá fyrir sér þessa 2.400 norsku eldislaxar sem nær örugglega slyppu árlega og syntu í nær- og fjærliggjandi ár. (Norskar rannsóknir!)
Fyrirhugað eldi er nefnilega risastórt, 8.000 tonn stendur til að framleiða þar, en það gera 2,4 milljónir laxa af norskum stofni í kvíum í tvö og hálft ár. Þetta er svipaður fjöldi og samtals veiðist hér af laxi, bleikju og urriða á tuttugu árum. Það er ekkert smáræði.

Og ef óhapp ætti sér stað gætu sloppið nokkur hundruð þúsund laxar, frjóir norskir laxar, sem gerðu sitt til blandast þessum kannski 100.000 íslensku villtu löxum sem við erum svo stolt af.

Setjum þetta í annað samhengi. Hvað ef næsta sumar væru fluttir inn breskir kolanámudráttarklárar nú eða arabískir gæðingar og látnir blandast íslenska hestakyninu, einsog það leggur sig.  Svona c.a. fjórir innfluttir á móti hverjum íslenskum. Eða rollur frá Nýja-Sjálandi ?

Hversu ánægð yrðum við með þann bræðing?

Það setur ugg að mörgum vegna þessara fyrirhugaðra eldisáforma, en við höfum tækifæri til að mótmæla þessu áformum.  Og meira en tækifæri, það er hreinlega skylda okkar að standa vörð um dýrmæta auðlind.

Látum öll í okkur heyra, ekki gera ráð fyrir að einhver annar bjargi þessu fyrir okkur.

Þú átt leik.

Erlendur Steinar Friðriksson.

Hugleiðing birt í Flugufréttum 10.apríl 2015

No comments:

Post a Comment