Jun 28, 2012

2012_7 Jurassic Lake

Í heilt ár hef ég hlustað á öfgaveiðisögur félaganna af Jurassic Lake.  Vænar bleikjur í massavís, ofurtökuglaðar,  kryddað með risaurriðum.  Hljómar frekar draumkennt - en þegar ég fór að sjá myndir af veiðinni fór ég að leggja við hlustir. Renndi svo austur í liðinni viku og kíkkaði á málið.  Jurrassic Lake er Skjálftavatn í Kelduhverfi sem Litla rennur úr.  Vatnið er á gosbeltinu á miðjum atlantshafshryggnum, sama beltið og t.d. Þingvallavatn liggur á.  Vatnið myndaðist í sjálftahrinu á 8. áratugnum við landsig, en var uppgræðslusandur landgræðslunnar.

Jun 27, 2012

2012_6_Yfir kaldan eyðisand...

Skrapp í dagstúr uppá hálendið að kanna laglega á sem hefur að geyma, skv munnmælasögum, mikið af   mjög stórri bleikju.  Varð ekki fyrir vonbrigðum með ánna og umhverfið.  Veiðin var líka ágæt - fengum 6 bleikjur 53-62 cm..
Skoða þetta pottþétt síðar og fleiri ár, sambærilegar.

Jun 25, 2012

2012_05_Fnjóská

Kíkkaði í Fnjóská í dag, áin var í c.a. 60m3, sumir staðir ekki spennandi, en aðrir þeim mun laglegri.
   Fór á svæði 4 fyrir hádegi, byrjaði í Lygnu, heldur mikið vatn þar, svo á Lækjarbreiðu sem var mjög lagleg í þessu vatni - klárlega gæti bleikja lagst þar, amk biðu þar tveir bleikjuhængar sem nenntu ekki til sjávar þetta árið og létu glépjast af bleikum nobbler.  Fór svo í Systrahvamm, veiddi bara fyrir ofan brú.    Mér leiðist sá staður  -stundum er kaffið gott í sjoppunni:).  Endaði svo í Nesbugðunni, sem lúkkaði alveg frábærlega niður undir girðingu, seiðin í tjörninni lágu alveg við útfallið - sá samt ekki hvort þau voru að smolta.

Jun 19, 2012

Vatnsmagn og veiðihorfur í Fnjóská

 Nú er lítinn snjó að sjá í fjöllum, mun minni en á sama tíma í fyrra.  Veldur tvennt,  leysing er fyrr á ferðinni og vetur var snjóléttari.  Vel má sjá muninn á snjómagni þegar bornar eru saman myndir af Vaðlaheiðinni, teknar í júní 4 ár í röð.  (þær koma síðar inn).  Leysing er nú sannarlega fyrr á ferðinni, toppurinn var seint í maí og svipar því til ársins 2008.  Þetta má sjá á rennslistölum úr Fnjóská, (sjá hér neðar), þar sést einnig að 2008 virðist leysing klárast að mestu um miðjan júní, smárennslisskot kemur svo í júlíbyrjun.  Sá toppur var vegna úrhellisrigningar, sem stóð í einn eða tvo daga, í kringum 4. júlí að mig minnir.  Þá hafði ég einmitt fylgst með Fnjóskánni hríðfalla í vatni í júni og hugði mér gott til glóðarinnar að komast í óvenjusnemmgengna bleikju framfrá....en nei, daginn sem ég fór til veiða, þá gerði úrhellið og áin varð óveiðandi.

Jun 15, 2012

Fnjóská opnuð

Kíkkaði í kvöld í Fnjóská þar sem stjórn Flúða var að opna ánna.  Það er alltaf smá spenningur að frétta af opnuninni, enda er þetta áin sem ég eyði mestum tíma við.  Í sumar eru t.d. planaðir 16 dagpartar við ánna og sjálfsagt verða þeir fleiri.  Fínt veiðivatn var í ánni, svipað og í fyrra, en sennilega talsvert hlýrra.  Ekki veiddist fiskur í opnunni.  En róa sig.....fisklaus opnun hefur ekkert spágildi fyrir veiði sumarsins - né virðist vatnsmagn í opnun hafa áhrif á fjölda fiska í opnun.  Ég setti þetta myndrænt upp og má skoða það ásamt myndum úr opnuninni með því að smella á lesa meira.

Hörgá svæði 1

Við feðgar fórum við þriðja mann að veiða á neðsta svæði Hörgár í morgun. Dýrðlegt veður, dásamlegt umhverfi, fögur fjallasýn, spegilsléttur fjörður, Gáseyrin iðaði af fugli, en ekki urðum við varir við fisk:).

Við mættum á svæðið um klukkustund eftir háflóð og veiddum útfallið í c.a. 3 tíma.  Kannski vorum við ekki á réttum tíma í fallinu, kannski var bleikjan ekki svæðinu, kannski vorum við bara klaufar.  Kannski hefði ég átt að horfa á mynbandið hans Þórodds...



Jun 14, 2012

Niður með stíflurnar...

Á sama tíma og Íslendingar vilja enn byggja stíflur sem hafa nokkuð óumdeilanleg áhrif á vistkerfið, eru aðrar þjóðir að rífa stíflur - til að endurheimta horfin vistkerfi......


Hérlendis er umræðan um endurheimt viskerfa með afstíflum að fæðast.  Nefndar hafa verið Skeiðsfossstíflan í Fljótaá, Sogsstíflur, Elliðavatnsstíflan o.fl.
Merkilegt er að flestir fiskifræðingar og vistfræðingar - nema kannski forstjóri Vveiðimálastofnunar,ef ég skildi hann rétt - eru mótfallnir  Þjórsárstíflum.... meira að segja þessi hér sem hefur nú ekki verið þekktur sem friðunar- eða verndarsinni...!
Í vefútgáfu TheNewYorkTimes má lesa um stíflu í Maine í BNA sem fjarlægð var til að endurheimta hrygningarslóðir. Í vefútgáfu San Francisco Cronicle má svo lesa um fleiri slíkar í Kalíforníu í BNA. (uppfært 9.4.13).
Hér er svo kort yfir stíflur sem hafa verið fjarlægðar í BNA síðustu áratugin (uppfært 10.03.14). 

Jun 13, 2012

Flóð eða fjara?

Á þessum árstíma er víða ágæt bleikjuveiði á ósasvæðum.  Bleikjan fylgir gjarnan fallinu, mokar í sig marfló ofl. góðgæti.  Ekki virðist bleikjan haga sér eins á öllum ósasvæðum, sumsstaðar er best að veiða hana á liggjandanum, annarsstaðar nokkru eftir háflóð og einhversstaðar gefur hún sig á innfallinu. Fallapólitík bleikjunnar verða menn bara að læra af reynslunni.  En þegar hún hefur verið kortlögð er ágætt að hafa góða flóðatöflu til að fletta í. Nokkrar fínar flóðatöflur eru á vefnum: Akureyri, Icelandþessi og þessi og þessi er líka með fróðleik um hvernig túnglið hefur áhrif á töku fiska. Hér er svo fín síða um sjávarföll í Eyjafirði. Vistey.is
Myndbandið er svo eina lagið sem ég man til að hafi verið samið um....flóðatöflur?

Jun 6, 2012

Stangveiði og stórlaxar...

Í gær opnuðu tvær laxveiðiár, fjölmiðlar voru duglegir að flytja fréttir af því.  Það er vel að fjölmiðlar flytja fréttir af stangveiði.  Miður er hinsvegar að þeir fjalla nánast eingöngu um laxveiði.  Það sýnir í hnotskurn hvað gildismat fjölmiðlafólks er skakkt og tilfinning þeirra fyrir lífinu í landinu er slöpp.  Á þessu eru þó undantekningar, því silungsveiðin fær ágæta umfjöllun á veiðivefjum grasrótarinnar.
Stangardagar í laxveiði eru 40.000,  rúmur þriðjungur fer til útlendinga, 15% er óselt, 20.000 dagar fara þá til Íslendinga, flestir þeirra fara í tvo eða fleiri tveggja daga túra og eru tveir um stöng.  Það þýðir að um 10.000 Íslendingar kaupa sér laxveiðileyfi.   Í könnunum kemur hinsvegar fram að um 60-70.000 manns veiða árlega - það þýðir að 50.000 þeirra sem veiða, fara ekki í laxveiði.
Samt fjalla fjölmiðlar um stangveiðar einsog þær snúist bara um laxveiði.  Það er svona svipað og umfjöllum um sjávarútveg einskorðist við fréttir af humarbátum.......




Jun 5, 2012

Veiðiskólinn 2012

Veiðiskóli SVAK hefst nú um helgina.  Þetta er 4. árið sem hann er starfræktur og er umfangið nú meira en nokkru sinni.  
Í sumar verða 5 námskeið í boði, sem verða endurtekin nokkrum sinnum eftir þörfum og er þegar búið að teikna upp 25 skipti.  
7 kennarar verða við skólann í sumar,  allt þrautreyndir veiðimenn. 


Nú þegar er búið að skipuleggja:
-Unglinganámskeið
-Veiðinámskeið fyrir byrjendu
-Flugukast fyrir byrjendur einhenda
-Tvíhendunámskeið
-Lærðu á ánna - boðið uppá veiði í ánum í firðinum með vönum veiðimönnum

Skráning er á elli(a)svak.is (nafn og símanúmer - staðfesting verður send)
Á hverju veiðinámskeiði er aðeins pláss fyrir 4 
Fjöldi á  kastnámskeiðin er  ekki takmarkaður
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 696-5464 
Námskeið eru haldin með með fyrirvara um næga þátttöku og skaplegt veður