Jun 19, 2012

Vatnsmagn og veiðihorfur í Fnjóská

 Nú er lítinn snjó að sjá í fjöllum, mun minni en á sama tíma í fyrra.  Veldur tvennt,  leysing er fyrr á ferðinni og vetur var snjóléttari.  Vel má sjá muninn á snjómagni þegar bornar eru saman myndir af Vaðlaheiðinni, teknar í júní 4 ár í röð.  (þær koma síðar inn).  Leysing er nú sannarlega fyrr á ferðinni, toppurinn var seint í maí og svipar því til ársins 2008.  Þetta má sjá á rennslistölum úr Fnjóská, (sjá hér neðar), þar sést einnig að 2008 virðist leysing klárast að mestu um miðjan júní, smárennslisskot kemur svo í júlíbyrjun.  Sá toppur var vegna úrhellisrigningar, sem stóð í einn eða tvo daga, í kringum 4. júlí að mig minnir.  Þá hafði ég einmitt fylgst með Fnjóskánni hríðfalla í vatni í júni og hugði mér gott til glóðarinnar að komast í óvenjusnemmgengna bleikju framfrá....en nei, daginn sem ég fór til veiða, þá gerði úrhellið og áin varð óveiðandi.


Nú er liðinn nokkuð langur tími, eða um 3 vikur, frá því rennslið var í toppi og hefur rennslið fallið nánast stöðugt síðan þá.  Það held ég að bendi til að leysingu sé lokið, þótt minniháttar skot gæti komið ef hiti fer í 20°C í tvo-þrjá daga.  Það þýðir væntanlega að fiskur veiðist á efri svæðum mun fyrr en í fyrra og jafnframt ætti veiðin að skiptast jafnar á milli svæða.   


Ég ætla jafnfram að spá því að sumarið verði nokkuð gott bleikjusumar, aðallega vegna þess hversu kalt sumarið í fyrra var.  Það hugnast bleikjunni vel og dregur úr samkeppni, því urriða- og laxaseiðum fellur kuldinn verr....No comments:

Post a Comment