Feb 21, 2013

Magafylli laxa og Vorflugupúpur

Aldrei hafa mér þótt myndir af fiski á aðgerðaborði vera smekklegar, en set þó eina slika inn.   Fyrir því eru sérstakar ástæður,  því fiskurinn reyndist einstakur og ýmislegt kom á óvart við aðgerðina...
Þannig er að seinni hlutinn af júli er frábær tími í bleikjunni hér í firðinum - þar sem formúlan er gott veður, fallandi vatn, nýgenginn bleikja, uppstrím fimman í hendi og Pheasant Tail á taumnum.
Einfaldlega ávísun á hamingju.  Þótt ég sé ekkert sérstaklega fiskinn rek ég stundum í fisk og jafnvel hirði ég einn til að hafa með heim á grillið - eða tvo.
Phesant Tail

Hef það sem reglu að veiða ekki í frystinn, bara í matinn - búnn að halda hana að mestu í 15 ár.
-En kannski meira um það síðar.-
Svo var það í einni af þessum ferðum, fyrir nokkrum árum að ég landaði nýgengnum smálaxi í bleikjuveiði á Pheasant Tail í upstríminu. Og hirti hann til að grilla um kvöldið.   Þegar ég kom svo heim til að gera að honum kom í ljós að blessaður laxinn var með magafylli af  Vorflugupúpum.   Þetta hafði ég aldrei séð eða heyrt um, hvorki fyrr né síðar.  Hringdi í nokkra félaga og enginn hafði frétt af þessu, hafði samband við Bjarna Jóns hjá veiðimál og hann hafði ekki heyrt um svona heldur, en úr varð að hann ákvað að koma við hjá mér og taka sýni af fiskinum - það var gert og ekkert merkilegt kom úr því.

Hjá mér voru gestir sem til að stóð að fengju nýgrillaðan lax í kvöldmatinn - ég auðvitað sýndi þeim þessa merkilegu uppgötvun.  Þau höfðu alveg passlega mikinn áhuga á innvolsinu en lögðu til að fiskurinn yrði geymdur til frekari vísindarannsókna og pöntuð pizza í kvöldmatinn:) - ég áttaði mig síðar á samhenginu.

En ég hélt áfram að leita upplýsinga um þetta - og sendi Pétri heitnum Brynjólfssyni eftirfarandi fyrirspurn um þetta - en Pétur hafði veitt í Fnjóská í áratugi og var einstaklega glöggur og náttúrulæs.


"Sæll Pétur 
Gleymdi að nefna það við þig að fyrr í sumar fékk ég grálúsugan lax í beygjunni lengst framfrá, sem kannski væri ekki í frásögur færandi, nema fyrir það hann var með magafylli af "fiðrilda"púpum.  Slíkt hef ég aldrei vitað um hvorki fyrr né síðar.   Helvítis laxinn hélt hann væri bleikja!   Hefur þú einhverja vitneskju um svona lagað?"


Og Pétur svaraði um hæl:

"Varðandi magafulla laxa úrFnjóská get ég greint frá því að fyrsta sinn sem ég sá slíkt var að Sig.Ring. bankast. (sennil. ár 1975-1976) bauð mér að koma að aðgerðarborði þar sem hann var að gera að veiði úr Fnjóská.  'Aborðinu lá 10-12 punda. hrygna og bæði í koki og maga var mikið magn af stórum skordýrum með litasamsetningu gulhvítt brúnt og svart ,stærð meir en 2 s.m.
'A árunum fyrir 1980 veiddi Kolbeinn Grímsson, blessuð sé hanns minning, með mér á hverju sumri í Fnjóská og eitt sinn snemma í ágúst gekk ég með honum frá Húsbreiðu upp að Nýjubreiðu sem þá hafði gefið fisk í nokkur ár.   Er við komum neðst að breiðunni ,tekið skal fram að logn var á og sólskin og hiti, sjáum við og heyrum gróf uppitök á hægum straumi hylsins.  Við nánari skoðun sáum við laxatorfu fiska af öllum stærðum breiða úr sér stuttu fyrir ofan brotið.
Ekki fór á milli mála að þeir lágu þarna til að súpa nýklaktar vorflugur,sennilega randavorflugu (Apatelia zonella), við gátum séð  flugurnar rása á straumnum og séð þegar fiskarnir tóku þærá rekinu
Að skoðun lokinni var komið að Kolbeini að kasta á þessa ;auðveldu; bráð og sameigleg skoðun okkar að Jock Scott einkr. no.8 væri allt sem til þyrfti væri hún dreigin hratt í yfiborði.  Löng saga gerð stutt því  Kolbeinn misti alla þá þrjá sem tóku þarna eftir stökk og mikil læti.

Þessi ferð okkar í Dalinn  ;tvær stangir í einn og hálfann dag  ;gaf okkur alls 19 laxa á landi og mikla bleikjuveiði og í nokkrum löxum fundum við þessar lirfur þegar eftir var leitað vegna uppákomunar á breiðunni grunnu.

Nú þykist ég vita  eftir að hafa séð til  d.r. Tuma Tómassonar kryfja laxa seiði að vorflugan sé mjög mikilvæg fæða fyrir laxaseiði á ákveðnu skeiði þar sem seiðin munu sennilega ná að naga uppvaxandi lirfur af grjótinu og þurfa þá að kyngja húsinu með og melta innihaldið.  Þegar vellt er við steinum af grýttum botni Fnjóskár má sjá lirfuhús vorfluglanna sem geta orðið allt að 2,5 s.m. langar.   Eftir gott sumar eins og nú eru þau stærstu öll tóm og yfirgefin og íbúarnir étnir eða látnir á eðlilegan hátt og næstu kynslóðir á leiðinni.

Bækurnar og sumir góðir menn segja að þetta geti ekki gerst en þannig er það nú bara að stundum eru til tvær útgáfur ef ekki fleiri af sannleikanum.

'I bókinni Veröldin í vatninu 1979 eftir Helga Hallgrímsson blaðsíðu 171 er komið nokkuð inná vorflugur og meira að segja minnst á Fnjóská í því sambandi. "

      - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - 


Já, það er sko fullt af allskonar í veiðinni...
þess má svo geta að eftir þetta hef ég árangurslaust reynt að bjóða matargestum þessa dags í lax eða silung - en þau eru alveg til í allan annan mat:)
Laxinn var svo grillaður daginn eftir með séruppskrift svila míns - flakaður og lagður í nokkra tíma í lög sem samanstóð af maukuðum  fetaosti, hvítlauk og balsamik ediki.. grillaður á roðinu og ekki snúið.
Afar ljúffengt