Oct 11, 2012

Laxá og Mývatn í hættu..?


Urriðasvæðin í Laxá ofan Brúarfossa eru meðal þeirra gjöfulustu, fallegustu og skemmtilegustu í víðri veröld.  Það vita þeir sem til þekkja.  Neðar, þar sem af mikilli hógværð heitir Aðaldalur, er svo laxasvæðið, einnig margrómað og eftirsótt.   Í Mývatni sjálfu, var áður fyrr mjög stór bleikjustofn, en er reyndar í sögulegri lægð um þessar mundir.
Frjósemi Mývatns er ein megin forsenda urriðaparadísarinnar.  Raunar er Mývatn algerlega einstakt á heimsvísu, eitt frjósamasta vatn á norðurhveli jarðar,  byggir á samspili efnasamsetningar og hitastigs lindarvatnsins sem í það streymir. Styrkur uppleystra efna (les. áburður fyrir ljóstillífandi þörunga) vex með hækkandi hitastigi lindarvatnsins.  Heitustu lindirnar og því mesti áburðurinn, eru við Ytri flóa og er það vatn jafnfram komið skemmst að - mögulega viðkvæmustu uppspretturnar.   Í heild sinni er þetta viðkvæmt vistkerfi enda verndað með lögum.

Og nú eru blikur á lofti,  áratugs gamlar hugmyndir um jarðvarmavirkjun við Bjarnarflag, svipaða Hellisheiðarvirkjun, eru á döfinni. Virkjunin verður nánast á bökkum Mývatns, þeim megin sem megnið af vatnsupptökusvæði Mývatns er - og næst Ytri flóa.

Og hvað með það?  Jú, höfum í huga að virkjunin er í aðeins 3-4 km fjarlægð frá Mývatni og því er áhættan af virkjuninni þríþætt:

Uppdæling:   Heitu vatni er dælt úr iðrum jarðar - það getur haft áhrif á grunnvatnsstöðu, hitastig lindarvatns og  efnasamsetningu þess.  Þetta lindarvatn er uppspretta og áburður Mývatns.

Niðurdæling:  Áætlað er að dæla niður vatni, þegar búið er að taka mesta hitann úr því.  Tekst það?  Hvernig?  myndast lón?  verður yfirborðsaffall til Mývatns?  Hversu mengað er það vatn?  Hver er reynslan af Hellisheiðarvirkjun í þessu tilliti?

Loftmengun frá virkjuninni verður sennilega umtalsverð - meða annars Brennisteinsvetni - NB þetta er í 4 km fjarlægð frá Mývatni - Hvaða áhrif hefur slík loftmengun á Mývatn?

Þarna er mögulega í uppsiglingu skelfilegt umhverfisslys.   Þetta er ekki bara svona upphrópun - heldur er þarna á ferðinni sannarlega og mikil áhætta.
Minni á að umhverfismatið er gert áður en reynslan af Hellisheiðarvirkjun var ljós og áður en Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu voru samþykkt.
Hér á lesa ágæta umfjöllun akv.is um málið.
Hér má skoða umfjöllun Landverndar um málið.

No comments:

Post a Comment