Jan 20, 2013
Vetrarstarf veiðifélaga
Afhverju er Vetrarstarf SVAK á mánudagskvöldum?
Þessi spurning kom á spjallþræði á fésinu. Sennilega býr fleira að baki spurningunni en akkúrat hvaða dag vikunnar þetta er haldið.
Þar sem ég var formaður SVAK þegar vetrarstarfið fór af stað þá get ég skýrt hvaða pælingar bjuggu að baki þegar þetta fyrirkomulag var hannað -
Förum aðeins yfir þetta....
Svarið er tvíþætt...
1) Hugmyndafræðilegt - þ.e. hvernig vetrarstarfinu skuli háttað, hvað á að gera, afhverju og hvernig?
2) Praktískt - hvaða vikudagar/dagur hentar bezt þeirri stemningu sem leitað er eftir.
Nú - þar sem um er að ræða félagsskap með nokkuð skýran tilgang, þá liggur því beinast við að fara eftir því sem þar er sett fram:
2. gr. Tilgangur félagsins er:
1) Að útvega félagsmönnum veiðileyfi
2) Að stuðla að samstarfi á milli stangaveiðifélaga á Eyjafjarðarsvæðinu
3) Að efla hróður stangaveiði með almennri fræðslu um íþróttina
4) Að styrkja stöðu stangaveiði sem almennings- og fjölskylduíþróttar
5) Að efla áhuga barna og unglinga á stangaveiði
6) Að vinna að samstöðu stangaveiðimanna og standa vörð um hagsmuni þeirra
7) Að stuðla að góðri umgengni veiðimanna um náttúruna og veiðisvæðin
Bara við að lesa þetta má sjá að hægt væri að uppfylla amk liði 4 og 5 , með því að bjóða uppá fræðslutengda viðburði sem öll fjölskyldan, þar með talin börn og ungmenni gætu sótt.
Með því að bjóða öðrum stangveiðifélögum í samstarf mætti svo uppfylla líð 2.
Með að fjalla í fjölmiðlum um vetrarstarfið og bjóða öllum almenningi þátttöku mætti vekja athygli almennings og þá væri liður 3 að hluta uppfylltur.
Efnistök væru;
-kynnningar og fundir um veiðisvæði á Norðurlandi auk þeirra svæða sem félögin hafa á sínum snærum.
-Umfjöllun um rannsóknir og vísindi
-Hnýtingakvöld
-Bíó
-Góðir gestir
Ákveðið var að hafa þessa viðburði reglulega, þ.e. einu sinni í viku frá miðjun janúar og út apríl. Þetta eru því allmargir viðburðir á hverjum vetri eða 15 og ljóst að framkvæmdin yrði að vera straumlínulöguð enda jafnan skortur á fólki til starfa í félagasamtökum. Aðeins ætti að þurfa einn aðila til sjá um hvern viðburð. Veitingar og viðurgjörningur í lágmarki, og aðeins atriði á hverju kvöldi.
Liðir 3, 4 og 5 gera viðburðina svo sjálfkrafa áfengislausa.
Og þar með eru föstudagskvöld og laugardagskvöld varla inní myndinni.
Sunnudagskvöld þóttu okkur ekki henta -veit ekki afhverju, þau eru bara þannig.
Miðvikudagskvöld eru sjónvarps-fótboltakvöld, á fimmtudagskvöldum eru tónleikar og leikhús. Þá var þetta spurning um mánudag eða þriðjudag og þóttu mánudagarnir viðburðasnauðari svo þeir urðu fyrir valinu.
Í fjögur ár hefur þetta reynst prýðilega, algengt er að um 20 manns mæti, en það getur farið niður í 10, en mesti fjöldi var rúmlega 70 manns. Þess má geta að félögunum 3 sem að þessu standa eru samtals á fimmtahundrað manns - þar af eru tæplega 100 þeirra í a.m.k. tveimur af þessum félögum.
Nú er fimmta árið að hefjast, metnaðarfull dagskrá að vanda - vonandi heppnast þetta vel í vetur.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment