Apr 23, 2014

Óstjórn stangveiða


Vorboðar veiðimanna eru margir - einn slíkur eru fréttir af stórurriðadrápi í Þingvallavatni ásamt stóryrtum og misvel-rökstuddum upphrópunum með eða á móti. Þarna er nú samt á ferðinni klassískt dæmi um nytjar á sameiginlegri en takmarkaðri auðlind.  Í raun skólabókardæmi sem fjallað er um bæði útfrá auðlindahagfræði og leikjafræði.  Í stuttu máli segir sagan okkur að ef nytjum á slíkum auðlindum er ekki stýrt, þá verður gengið að þeim þar til ekkert er eftir.   Með öðrum orðum - græðgi mannsins klárar auðlindina. Aðeins er hægt að koma í veg fyrir það með því að setja á sameiginlega stýringu á nýtingu auðlindarinnar, byggða á bestu fáanlegu upplýsingum.  
Í lögum um lax- silungsveiði er einmitt gert ráð fyrir slíku.  Mig grunar þó að veiðiréttarhafar við Þingvallavatn hafi brotið a.m.k. tvær megingreinar laganna; 37. gr. sem segir til um stofnun veiðifélags og 19. gr. sem segir til um gerð nýtingaráætlunar. A.m.k. lítur út fyrir að hvorugt sé til staðar.
Enda er eftirlit af hálfu hins opinbera ekkert, viðurlög engin og engar breytingar í augsýn.
Ef ekki væri fyrir frumkvæði veiðimanna sjálfra og/eða leigutaka, væri í flestum ám og vötnum enn stunduð miskunnarlaus rányrkja.
Það segir kannski mest til um það í hversu miklum ólestri stjórn þessara mála almennt er...