Feb 10, 2015

Um stangveiðar hér og þar....


Stangveiðar / sportveiðar eru risastórt fyrirbæri á heimsvísu - árlegur fjöldi stangveiddra fiska er um 50 milljarðar og þar af væru 17 milljarðar drepnir eða um 1/3.  Það þýðir þá að miklum meirihluta er sleppt aftur.  Umfang stangveiðar er orðið slíkt að þær svara til á milli 15-35% af heildarafla heimsins.
Á ýmsum ferskvatns- og strandsvæðum hafa stangveiðar tekið nytjaveiðar yfir og eru stangveiðar nú orðnar aðal ástæða veiðidauða hjá mörgum tegundum sem eru eða voru nytjastofnar.
Stangveiðar eru mikilvæg afþreying fyrir fólk víða um heim og haga gríðarlega víðtæk efnahagsleg áhrif, bæði svæðisbundin og á landsvísu.  Gott aðgengi að stangveiði er hluti af búsetutengdum lífsgæðum,  rétt einsog aðgengi að skíðasvæði eða sundlaug, góðum samgöngum, menntun og heilbrigðisþjónustu...!

Meira um þetta hér neðar....


Fiskveiðar eru hverskonar veiðar á fiski.  Þeim má skipta upp í fiskveiðar í atvinnuskyni eða nytjaveiðar, þar sem að aflinn er seldur og sportveiðar sem eru veiðar á fiski í afþreyingarskyni. 
Afli er talinn sá fiskur sem hefur verið drepinn en veiði (sbr. veiðitölur)  er allur veiddur fiskur, hvort heldur hann er drepinn eða honum er sleppt.
Auknar fiskveiðar (afli) eru almennt taldar hafa áhrif á stofnstærðir fiskistofna 1.  Áhersla í veiðistjórnun, rannsóknum á fiskistofnum og áhrifum veiða á þá,  hefur að mestu verið á stofna þar sem að atvinnuveiðar (nytjaveiðar) eru stundaðar 2.  Í seinni tíð hefur sókn í sportveiðar á heimsvísu vaxið gríðarlega og er líklegt, samkvæmt varfærnu mati, að heildar sportveiðar geti numið allt að 30 milljón tonnum árlega 3,4. Það nálgast þriðjung af heildar fiskveiðum heimsins, hin síðustu ár 5
Cooke og Cowx 6 mátu hinsvegar, árið 2003, umfang stangveiða á heimsvísu sem 12 % af heildar afla og að árlegur fjöldi stangveiddra fiska gæti verið 47 milljarðar og þar af væru 17 milljarðar drepnir eða um 1/3.
Stangveiðar og nytjaveiðar eiga margt sameiginlegt m.t.t. veiðistjórnun og verndun fiskistofna.  Breytingar á samsetningu stofna, í aldri og stærð geta átt sér stað.  Það getur svo haft áhrif á þróun þeirra, á vistsvæðin, meðafla, minnkun í heildar lífmassa, mengun og ýmislegt fleira 7. Á ýmsum ferskvatns- og strandsvæðum hafa stangveiðar tekið nytjaveiðar yfir 8 og eru stangveiðar nú orðnar aðal ástæða veiðidauða 1,9 hjá mörgum tegundum sem eru eða voru nytjastofnar.           
Stangveiðar og nytjaveiðar eru einnig ólíkar um margt:  Stangveiðar eru aðlögun og tiltölulega afkastalítið veiðarfæri en togveiðar t.d. eru föngun og afkastamikið veiðitæki, því er veiðnin ekki sambærileg. Hins vegar eru fjöldi stangveiðimanna mikill; milljónir á alheimsvísu og geta uppsöfnuð áhrif þeirra verið afar mikil. 6,7,10.   En það eru fleiri þættir sem eru ólíkir. Nytjaveiðar þurfa að bera sig rekstrarlega og því er þeim oft sjálfhætt þegar stofn minnkar það mikið að veiðanleikinn er orðinn of lítill til að veiðarnar beri sig  (nema þær njóti styrkja).  Stangveiðimenn hafa á hinn bóginn ekki endilega áhyggjur af því hversu mikið veiðist. Af því leiðir að þegar stofninn minnkar og líkurnar á því að fá fisk sömuleiðis, þá heldur stangveiðimaðurinn veiðum samt áfram. 10. Því má segja að sjálfsstjórn stangveiða séu ekki til staðar þ.e.a.s. stangveiðimaðurinn hættir ekki þó að fiskistofninn minnki,  þá er hætta á ofveiði og lækkuðu veiðiþoli,  hrygning og nýliðun minnkar, sjálfbærni stofnsins í húfi og líkur á hruni aukast.  Þetta getur svo aftur leitt til aukins veiðidauða þ.e.a.s. að veiðanleiki hvers fisks fer að aukast aftur enda orðin hlutfallslega meiri sókn í hvern einstakling.  Þá eru fiskarnir orðnir færri en sama sókn og meiri líkur á að hver einstaklingur verði drepinn.  Við slíkar aðstæður er talað um öfug þéttleikaháð áhrif 11.    
Veiðihlutfall í laxveiði,  miðað við sambærilega sókn (þ.e. sambærilegan fjölda veiðidaga),  er gjarnan talið um 60-70% 12,13 og er það að mestu óháð stærð fiskistofns eða vatnsfalls.  Ef stofninn fer minnkandi (burtséð frá orsökum) og gert er ráð fyrir að veiðihlutfall fisks sé einnig nánast fasti,  þá magnar veiðin niðursveifluna og hugsanlega það mikið að komið er niður fyrir sjálfbærnimörk 11.  Þegar svo er komið verður að setja kvóta á afla,  þ.e. takmarka dráp á fiski af völdum veiða. 
Sportveiðar eru orðnar mjög mikilvæg afþreying fyrir fólk víða um heim og hefur víðtæk efnahagsleg áhrif, bæði svæðisbundin og á landsvísu 3,8,14-16.  Athyglin hefur því beinst í ríkari mæli að þeim fiskistofnum þar sem sportveiðar eru stundaðar, með það að markmiði að huga að sjálfbærni þeirra og minnka áhrif veiðanna en án þess þó að skerða aðgengi eða tækifæri til sportveiða.  Veiðistjórnun í kringum sportveiðar er þó ekki ný af nálinni. Í Evrópu hefur veiði verið stýrt með ýmsum hætti allt frá miðöldum 4,17,18, en það er í rauninni ekki fyrr en á síðustu áratugum sem V&S aðferðin fór að ryðja sér til rúms og í framhaldinu hefur hún verið rannsökuð nokkuð ítarlega.  Upphaf veiða og sleppa má rekja aftur til miðalda í Evrópu þegar innleiddar voru reglur fyrir stangveiðar sem voru á þá leið að aðeins mætti uppskera eða drepa fisk af ákv. stærð 4.

Stangveiðar á Íslandi

Lax- og silungur hefur verið nytjaður  á Íslandi frá landnámi, fyrst sem matarkista en síðustu áratugi í auknum mæli sem stangveiðisport.  Óhætt er að flokka laxfiska sem verulega verðmæta náttúruauðlind, sem hvoru tveggja skapar gjaldeyristekjur og styður við búsetu í dreifðum byggðum.  Árið 2004 voru bein, óbein og afleidd áhrif stangveiða á laxi og silungi á þjóðarbúið metin á allt að 9 milljarða 19, og aftur árið 2009 á 15 milljarða 20. Þessar upphæðir væru 16 og 17 milljarðar reiknað á verðlagi í desember 2013 21.  Stærstur hluti þess er vegna laxveiði enda eru laxveiðileyfi mun dýrari en silungsveiðileyfi og þeim fylgir hærra þjónustustig.  Náttúrulegar laxveiðiár eru að mestu fullnýttar og því vart meiri vaxtar að vænta þar 19,22.
Margar silungsveiðiár eru vannýttar og hefur talsverður vöxtur verið í sölu á silungsveiði til erlendra veiðimanna síðustu árin.  Nýting í silungsveiðiám við Eyjafjörð er  að meðaltali um 40% sem þýðir að allt að 3.000 veiðidagar eru óseldir á svæðinu ár hvert 23.  Ef miðað er við að allir þeir dagar væru seldir til veiðimanna utan svæðis, að jafnan væru tveir um stöng, veiðimenn keyptu gistingu í eina nótt fyrir hvern veiðidag og stór hluti þeirra nýtti sér leiðsögn,  gætu tekjur numið 100-200 milljónum ár hvert.  Ónýtt sóknarfæri virðast því vera í þessum geira ferðaþjónustu og ekki hvað síst á Eyjafjarðarsvæðinu.  Árið 2006 voru efnahagsleg áhrif ónýttra silungsveiða á landsvísu talin geta verið 5-7 milljarðar króna á ári 22
 Erlendis er vöxtur í stangveiðiferðamennsku afar ör 14 og er víða verið að endurheimta ár eða rækta upp svæði til að mæta veiðieftirspurn 15. Stangveiðimenn eru tilbúnir til að greiða hærri upphæðir fyrir leyfi til að veiða heldur en sem nemur virði mögulegs afla.  Því eru tekjur af stangveiðum víða orðnar hærri en af nytjaveiðum 16 og getur munurinn í einstökum tilvikum verið allt að 35-faldur 19.
Samkvæmt könnun Hagfræðistofnunar frá árinu 2004 veiddu 31,5% Íslendinga á aldrinum 18-69 ára fisk á stöng,  sem er svipað hlutfall og í BNA 3 en talsvert lægra en í Noregi.  Hækki hlutfall íslenskra stangveiðimanna á næstu árum, auk meiri sóknar erlendis frá, mun það koma fram í aukinni sókn í silung.  En aukinni sókn getur hinsvegar fylgt hætta á ofveiði 2,111. Ocean Studies Board, ed. Sustaining marine fisheries. Washington D.C.: The National Academies Press; 1999. http://www.nap.edu/openbook.php?record_id=6032.
2. Pauly D, Christensen V, Guénette S, et al. Towards sustainability in world fisheries. Nature Publishing Group. 2002;418:689-695.
3. Ditton RB, Holland SM, Anderson DK. Recreational fishing as tourism. Fisheries. 2002;27(3):17-24.
4. Arlinghaus R, Cooke SJ, Lyman J, et al. Understanding the complexity of catch-and-release in recreational fishing: An integrative synthesis of global knowledge from historical, ethical, social, and biological perspectives. Rev Fish Sci. 2007;15(1-2):75-167.
5. FAO, Fisheries and Aquaculture Department. The state of world fisheries and aquaculture. . 2012.
6. Cooke SJ, Cowx IG. The role of recreational fishing in global fish crises. Bioscience. 2004;54(9):857-859.
7. Cooke SJ, Cowx IG. Contrasting recreational and commercial fishing: Searching for common issues to promote unified conservation of fisheries resources and aquatic environments. Biol Conserv. 2006;128(1):93-108.
8. Arlinghaus R, Mehner T, Cowx IG. Reconciling traditional inland fisheries management and sustainability in industrialized countries, with emphasis on europe. Fish Fish. 2002;3(4):261-316.
9. Coleman FC, Figueira WF, Ueland JS, Crowder LB. The impact of united states recreational fisheries on marine fish populations. Science. 2004;305(5692):1958-1960.
10. Lewin W, Arlinghaus R, Mehner T. Documented and potential biological impacts of recreational fishing: Insights for management and conservation. Rev Fish Sci. 2006;14(4):305-367.
11. Post JR, Sullivan M, Cox S, et al. Canada's recreational fisheries: The invisible collapse? Fisheries. 2002;27(1):6-17.
12. Guðni Guðbergsson, Þórólfur Antonsson. Tengsl stofnstærðar, sóknar og veiðihlutfalls hjá laxi í elliðaánum. . 2008;1(5):242.
13. Jónsson IR, Antonsson Þ, Guðjónsson S. Stofnstærð lax (salmo salar) og bleikju (salvelinus alpinus) í samhengi við veiði. . 2008;5(1):234.
14. Tourist Development International Ireland. Socio-economic study of recreational anglers in ireland. [Stangveiði Írland]. 2013.
15. Hjalager A. Regional innovation systems: The case of angling tourism. Tourism Geographies. 2010;12(2):192-216.
16. Zwirn M, Pinsky M, Rahr G. Angling ecotourism: Issues, guidelines and experience from kamchatka. Journal of Ecotourism. 2005;4(1):16-31.
17. Muoneke MI, Childress WM. Hooking mortality: A review for recreational fisheries. Rev Fish Sci. 1994;2(2):123-156.
18. Wilde GR. Estimation of catch and release fishing mortality and its sampling variance. Fish and Wildlife Management Institute. 2002;3:82.
19. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Lax- og silungsveiði á íslandi –  Efnahagsleg áhrif  . . 2004;C04:06.
20. Steinsson S. Stangaveiðimarkaðurinn á íslandi. [Bs]. Birfröst Borgarbyggð: Háskólinn á Bifröst Viðskiptadeild; 2010.
22. Guðmundur Gunnarsson. Silungsveiði á íslandi
- vannýtt tækifæri   . [Silungsveiði á Íslandi - vannýtt tækifæri]. 2006.
23. Gíslason JB. Arðsemismat á gerð fiskvegar í bleikjuveiðiá í eyjafirði. [Bs]. Akureyri: Háskólinn á Akureyri; 2010.

No comments:

Post a Comment