Dec 4, 2014

Eyjafjarðará 2014

Mynd 1 / Fyrsta svæði í Eyjafjarðará
Heldur er hann hægfara batinn á bleikjunni í Eyjafjarðará.   Lokatölur 2014 voru 449 bleikjur, 236 urriðar og 2 laxar - samtals 687 fiskar.   Það er næstlakasta bleikjuveiðin frá 1991 og sömuleiðis næstlægsta heildartalan. Aðeins árið í fyrra var lakara.
Urriðaveiðin var hinsvegar yfir meðaltali en hefur þó ekki verið lægri síðan 2007 og 2008. Tíðindið eru kannski að aftur veiðist meira bleikju en urriða.  Þannig hefur það hefur reyndar verið alla tíð, ef frá eru talin árin 2012 og 2013.
Mynd 2 / Veiðitölur í Eyjafjarðará 1990-2014

Bleikjan sækir í sig veðrið á öllum svæðum, sérstakleg á svæðum eitt og fimm.  Á svæði eitt hafa t.d. ekki veiðst svona margar bleikjur síðustu fimm árin og ánægjulegt er að sjá að svæði fimm er aftur orðið besta bleikjusvæðið í ánni.  Svæði fjögur hjarnar örlítið enda eru aftur farnir að myndast veiðistaðir þar eftir að skriðan mikla féll haustið 2011.
Urriðinn og sjóbbinn halda sig enn á neðsti svæðunum og var svæði tvö gjöfulast.
Þegar heildartölurnar eru skoðaðar má segja að meira jafnvægi sé nú á milli svæða en verið hefur í nokkurn tíma, ef frá er talið svæði fjögur.
Rétt er að hafa í huga að veiðitímabil svæðanna eru mislöng-  svæði fimm er aðeins opið í ágúst, svæði fjögur í júlí og ágúst og veitt er á svæðum eitt, tvö og þrjú frá júlí og út september, auk þess sem svæði eitt er opið í apríl og maí. Sjá nánar á eyjafjardara.is
Mynd 3 /  Skipting veiði í Eyjafjarðará eftir svæðum

Stærstu bleikjurnar veiðast á svæðum fjögur og fimm, 50 cm að meðaltali og allt að 71 cm.  Ellefu bleikjur voru 65 cm eða stærri og 25 bleikjur voru 60 cm eða stærri,  en það eru bleikjur á bilinu 6-9 pund.  Þess má geta að stærstu bleikju sumarsins veiddi Jón Gunnar á svæði fimm og var hún 71 cm, sama fisk veiddi hann þremur árum áður á sama stað og var hún þá 65 cm, en þar með er ekki öll sagan sögð; því bleikjan var merkt vorið 2008 - þá um 40 cm á lengd.  Hún er með kennitöluna: IS-93006:)  Það er óhætt að segja að þessi tiltekna bleikja sé lifandi sönnun þess að veiða&sleppa átakið í Eyjafjarðará ber árangur. Samkvæmt rannsókn á bleikju í Eyjafjarðará, vex bleikjan um 4-5 cm að meðaltali og nokkuð stór hluti veiðist oftar en einu sinni.  Nánar má lesa um það hér.
Stærstu urriðarnir veiddust á svæðum eitt, tvö og þrjú og þar var meðallengdin tæpir 50 cm.  Aðeins veiddust þrír urriðar á svæðum fjögur og fimm.   33 urriðar voru 60 cm eða stærri og 11 voru 70 cm eða stærri.



Mynd 4 / Lengdir eftir svæðum í Eyjafjarðará


Að lokum fylgja myndir með fjölda og stærð eftir vikum veiðitímabilsins - þær skýra sig sjálfar.

Mynd 5 / fjöldi og stærð eftir vikum í Eyjafjarðará