Jul 1, 2012

Júní-Eyjafjörður


Góðviðri í júní hefur jafnan verið ávísun á mikla vatnavexti í Eyfirskum ám.  Þetta árið tókst veðurguðunum þó að bjóða uppá gott veður án mikilla vatnavaxta.  Sennilega ræður þar einhverju að lítill snjór var í fjöllum, t.d. var skaflinn við raflínurnar í Vaðlaheiðinni að mestu horfinn um miðjan júní eða mánuði fyrr en vanalega.   Veiði hefur líka farið ágætlega af stað. 
 Mjög góð bleikjuveiði hefur verið  á ósasvæði Hörgár allan júni en lítið hefur borið á urriða. Í systuránni Svarfaðardalsá blómstrar hinsvegar urriðinn og eru þar komnir þrefalt fleiri urriðar en á sama tíma í fyrra, þar hefur hinsvegar lítið borið á bleikju.




 Í Fnjóská  veiddist lítið í opnuninni og var það mál manna að sennilega gengi fiskur hratt uppí á enda Laufásfossar lítil hindrun í svona litlu vatni.  Það reyndist rétt því lax og sjóbleikja veiddust á svæði 4 í lok júní en hefur það ekki gerst í manna minnum.   Engar fréttir er enn að hafa úr Eyjafjarðará en stutt er síðan hún opnaði, vonandi verður fyrirkomulagi þar breytt fyrir næsta ár og áin opnuð fyrir mögulega urriðaveiði í maí.   Ólafsfjarðará og Héðinsfjarðará opna svo um miðjan mánuðinn, heimildir herma að ágæt sjóbleikjuveiði hafi verið í ósnum við Héðinsfjarðá, bæði á stöng og í net.