Mar 20, 2013

Efnahagsleg áhrif stangveiða



Ársfundur Veiðimálastofnunar er í dag.  Í ársskýrslunni metur Sigurður forstjóri veltu stangveiða á 20 milljarða, þar af renni til veiðiréttarhafa á annan milljarð.  Þetta hefur mér vitanlega ekki verið reiknað út síðan 2004 - tölur forstjórans eru því sennilega framreikningur miðað við verðlagsbreytingar.  Gríðarmargt hefur breytzt síðan 2004 - mikil aukning hefur verið í silungssókn, innlendinga og útlendinga og verð veiðileyfa hefur hækkað langt umfram verðlagsþróun.  Kæmi mér ekki á óvart þótt virðisaukningin hefði verið langt umfram verðlagsþróun.  Það er full ástæða til að taka svona skýrslu saman aftur.

Sigurður segir einnig:  "Nýting veiðihlunninda er því  ein af stærstu búgreinum landsins og afar mikilvæg  fyrir búsetu víða í sveitum landsins" ..

Ég held að búsetufullyrðingin sé ofmetin.
Eignarhald á jörðum með veiðirétti, færist frá bændum til frístundafólks.  Þjónustan í kringum veiðina er í sífellt minna mæli búsetutengd,  leiðsögn og veiðihúsarekstur er hálfgerður vertíðarbransi sem keyrir á farandvinnuafli,  markaðstarf og sala fer fram á netinu eða í gegnum síma.


Hér er nokkrar heimildir um málið- lesið og metið sjálf:
Skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ - frá 2004
Stangaveiðimarkaðurinn á Íslandi - nemendaverkefni frá 2009


Um daginn var ég með smápælingar um Veiðimálastofnun - sá ársskýrslunni að stofnunin er komin á réttan stað - til umhverfis- og auðlindaráðuneytis.