Mar 14, 2013

Laxeldi í sjó #3

Ég hef heyrt fiskeldismenn segja að lax sleppi ekki úr kvíum:)
Samt sluppu alltað 700.000 laxar þegar óveðrið Berit gekk yfir Noreg haustið 2011 (sjá hér).

Og hvað með það þótt lax sleppi úr kvíum?

Eldisfiskur eru erfðafræðilega frábrugðnir þeim villta.
Annar landfræðilegur uppruni, minni erfðabreytileiki, óbeint eða beint val og genaflökt.
Eldisfiskur og villtur fiskur geta samt átt afkvæmi saman!
1/3 laxfiska sem ganga upp í ár í Noregi er eldisfiskur.    Sumstaðar er hlutfallið 80%.
Villtir stofnar útdauðir í 27% áa í heiminum.  Í útrýmingarhættu í mörgum öðrum ám.

Villtir stofnar á Íslandi standa þokkalega - viljum við sjá sömu þróun á Íslandi?

Og bara svo það sé á hreinu - þá er eldisfiskur líka með sporð og hann syndir ekki endilega uppí næstu á....
Á þessari mynd sést það greinilega.
         (heimild: http://www.nina.no/archive/nina/PppBasePdf/temahefte/036.pdf)


Stundum er það ekki bara laxinn sem sleppur - heldur losna kvíaþyrpingar í heilu lagi og strjúka á haf út.  Og nota bene laxinn slapp úr kvíunum.
(heimild: http://news.stv.tv/north/293415-salmon-cages-lost-at-sea-slowly-being-retrieved/)




Eftirfarandi texti er úr verkefni sem samnemendur mínir á Hvanneyri unnu um laxeldi og áhrif þess á vilta stofna - soldið hrátt, en stundum er best að sleppa öllum krúsidúllum:

" Ýmis vandamál koma upp í eldi
Sjórinn þarf að vera hreinn og með rétt hitastig, seltu ofl
Sjúkdómar og sníkjudýr blossa upp við mikinn þéttleika
Fiskarnir éta hvern annann
Stundum þarf að brjóta land til að koma eldinu fyrir
Kvíarnar sjálfar menga, því sjór í kring getur ofauðgast af næringarefnum
Lífverur úr búrum geta sloppið og geta þá haft áhrif á nálæg vistkerfi
Einkum hafa menn áhyggjur af því eð eldislax (sem er af norskum uppruna) sleppi og skaði innlenda laxastofna
Hættan er sú að hin hraðvaxta erlendi stofn ýti íslensku stofnunum til hliðar á hrygningartímanum og minnki því möguleika íslensku afkvæmana
Þó eldisfiskurinn geti átt afkvæmi er óvíst að þau geti bjargað sér eins vel og þau íslensku
Rándýr eiga auðvelt með að nálgast dýr í búrum
Þetta er ekki bara fræðilegt dæmi því þetta er þekkt erlendis
Á móti kemur að ef laxeldi á að dafna hér verður að nota erlenda stofna því þeir íslensku vaxa ekki nógu hratt?

Laxeldi er vaxandi atvinnugrein og eru lönd eins og Noregur, Skotland og Kanada að framleiða gífurlega mikið magn af laxi. Þessi þrjú lönd eru stærstu framleiðendurnir í Norður Atlantshafinu en framleiðsla þessara landa var samtals 48% af heildarframleiðslu heimsins í laxeldi árið 2005. Talið er að um tvær milljónir laxfiska sleppi úr eldisstöðvum í Norður Atlantshafið á hverju ári, en þessi fjöldi jafnast á við um 50% af villta laxastofninum á svæðinu. Fiskarnir sleppa bæði við reglubundna meðhöndlun auk þess sem ýmis atvik, s.s. ofsaveður, getur leitt til þess að gífurlegur fjöldi fiska sleppa. Framleiðslufyrirtækjunum ber skylda til að tilkynna það til stjórnvalda ef laxar sleppa úr eldi þeirra en svo virðist sem að mörg fyrirtæki vanræki þá skyldu og því er í raun ekki vitað með vissu hversu mikið af eldislaxi sleppur út í náttúruna. Á árunum 1993-2005 sluppu að meðaltali 440 þúsund eldislaxar á hverju ári í Noregi og er hér aðeins um að ræða þau atvik sem voru tilkynnt til stjórnvalda.
Eldislaxarnir sleppa bæði við reglubundna meðhöndlun auk þess sem ýmis atvik, s.s. ofsaveður, getur leitt til þess að gífurlegur fjöldi fiska sleppa. Þessi mynd er tekin í Fundy flóa við Atlantshafsströnd Norður Ameríku, en hann liggur á milli New Brunswick í Kanada og Nova Scotia. Fiskeldi í flóanum verða fyrir miklum áhrifum að veðrum og vindum og er Atlantshafslaxinn að sleppa þarna í gífurlegu magni og af þeim sökum er villti stofn Atlantshafslaxins á svæðinu sagður í útrýmingarhættu.

https://asf.ca/escapes-feared-after-winter-storms-in-ns.html

•Talið er að um einn þriðji þeirra laxfiska sem ganga upp í árnar í Noregi sé því eldisfiskur og nær þetta hlutfall hátt upp í 80% í stöku tilfellum. Við austurströnd Norður Ameríku er ástandið einnig orðið gífurlega slæmt þar sem að eldislaxar hafa hreinlega yfirtekið sumar ár þannig að fjöldi þeirra er 10 eldisfiskar á hvern villtan lax. Þar sem að villtir stofnar Atlantshafslaxins eru útdauðir í um 27% áa og er í útrýmingarhættu í mörgum öðrum ám er ljóst að vandamálið er gífurlegt. Eldislaxarnir eru erfðafræðilega frábrugðnir þeim villta, bæði vegna mismunandi landfræðilegs uppruna sem og vegna ýmissa þátta sem ræktun á eldisfiski hefur á genamengi laxanna, s.s. minnkandi erfðabreytileiki vegna skyldleikaæxlunar, óbeint eða beint val ýmissa eiginleika og genaflökt. Þrátt fyrir þetta allt er eldisfiskurinn fær um að tímgast við villta laxinn.
•Oft hægt að þekkja eldislaxa í sundur frá villtum löxum út frá útlitinu. Þeir eru aðeins öðruvísi í laginu, hreistrið er aðeins mismunandi auk þess sem þeir eru erfðafræðilega frábrugðnir eins og komið hefur fram. Það er hinsvegar erfiðara að þekkja eldislaxa í sundur frá villtum löxumútlitslega ef að eldislaxarnir sluppu snemma á lífsferlinum.
Í dag hafa tiltölulega miklar rannsóknir farið fram á mögulega neikvæðum áhrifum eldislaxa sem sleppa út í náttúruna á stofna villtra Atlantshafslaxa. Neikvæð áhrif vegna eldislaxanna virðast koma fram bæði í vistfræðilegum- og erfðafræðilegum skilningi og hafa fyrri rannsóknir sýnt fram á að kynblöndun eldislaxa við villta laxa geti leitt af sér styttri lifun, minni hæfni og æxlunarárangur í að minnsta kosti tvær kynslóðir. Í þessum fyrirlestri verður megináhersla lögð á rannsókn McGinnity, Prodohl et al. 2003. Hér er um að ræða ákveðna tímamótarannsókn á þessu sviði. Fyrri rannsóknir á áhrifum eldisfiska á villta stofna höfðu áður aðeins falið í sér rannsóknir á hæfni F1 blendinga eldis- og villtra fiska eins og þið getið séð hérna á töflunni. Í þessari rannsókn voru hins vegar tvær kynslóðir blendinga skoðaðar (F1 og F2) Þetta var gert vegna þess að fyrstu kynslóðir blendinga (F1) sýna oft meðal- eða jafnvel meiri hæfni í samanburði við foreldra sína. F2 geta svo aftur sýnt minni hæfni, en þetta er nokkuð sem kallast ,,outbreeding depression”. Auk F2 blendinga voru líka framkvæmdar bakæxlanir þar sem að F1 blendingum var æxlað við annars vegar villta laxa og hins vegar eldislaxa. Þar sem að laxinn er ferskvatnssækinn farfiskur og lifir hluta lífsferils síns í sjó, voru áhrifin skoðuð bæði fyrir ferskvatnsstigið og sjóstigið og svo auðvitað áhrifin sem urðu á ferðalag þeirra í eða úr sjónum.
Unnið var með þrjá mismunandi árganga frá árunum 1993, 1994 og 1998. Fyrir hvern þessara árganga voru æxlanir framkvæmdar til að fá út:
F1 blending (villtur kvk x eldis kk) og  F1 blending (eldis kvk x villtur kk).
Fyrir 1998 hópinn voru líka myndaðir F2 blendingar (F1 x F1), BC1 villtur backcross (F1 x villtur) og BC1 eldis backcross (F1 x eldis).
Framkvæmdar voru æxlanir þannig að 500-800 hrogn urðu til á hverja fjölskyldu og tekin voru vefsýni úr foreldrum til DNA-greiningar.
 •Fyrri rannsóknir hafa sýnt að eldislax hafi æxlunaratferli sem er frábrugðið því hjá villta laxinum og leiðir það til minni æxlunarárangurs eldislaxa. Þessi rannsókn McGinnity og félaga ýtir enn frekar undir þessa tilgátu. Glögg merki þess að um ,,outbreeding depression” væri að ræða hjá F2 blendingum komu fram en það virðist þó bara koma fram á fyrstu þroskastigum þannig að þeir einstaklingar sem komast í gegnum fyrstu þroskastigin verða ekki fyrir enn frekari áhrifum outbreeding depression.
•Beint og óbeint val auk genaflökts sem á sér stað í ræktun eldisfisks veldur miklum breytingum í hegðunar- og lífeðlisfræðilegum þáttum sem geta minnkað hæfni fiskanna til að lifa við náttúrulegar aðstæður. Þetta val í ræktun eldisfiska hefur gjarnan leitt til aukinnar framleiðslu vaxtarhormóna hjá eldisfiskunum sem um leið veldur aukinni árásarhneigð og um leið lakari viðbrögðum laxins gegn afránshættu. Þessi aukna árásargirni og hraðari vöxtur fiskana á fyrstu þroskastigum þeirra leiðir þó til þess að ungviði eldisfiska hefur gjarnan betur í samkeppni við villta laxa. Áhrif vegna þessarar samkeppni eru þó mismunandi eftir aðstæðum, þ.e. árásargirni eldisseiða gagnvart villtum seiðum dugir ekki ein og sér heldur þurfa eldisseiðin að vera fær um að lifa af þær erfiðu aðstæður sem myndast á leið þeirra niður í sjó. Séu aðstæður nógu góðar er líklegt að eldisseiðin sigri í samkeppni við villtu seiðin. En í ljósi þess að rannsókn þessi sýndi fram á að eldislaxinn lifir sjódvölina síður af en villtir laxar kemur þessi samkeppni fram í lakari hæfni villta stofnsins án tillits til genabreytinga stofnsins.
Bakæxlun F1 blendinga við villta fiska leiðir af sér genablöndun frá eldislöxum til villtra laxa. Þar sem fáir stofnar laxfiska eru notaðir í laxeldi, kemur þetta genaflæði til með að minnka þann genafjölbreytileika sem til staðar er í stofnum Atlantshafslaxa sem mun enn frekar leiða til skertrar aðlögunarhæfni tegundarinnar.
Samkvæmt þessu byggist minnkun í hæfni villta stofnsins á mörgum þáttum. Mikilvægt er að skilja að í raun þarf ekki mikil minnkun á hæfni að eiga sér stað til þess að breytingar á stofnstærðinni verði miklar. Þar sem að ræktun eldisfiska fer fram í lokuðu umhverfi geta niðurstöður þessarar rannsóknar hæglega verið yfirfærðar á margar aðstæður þar sem ræktuðum dýrum er sleppt í náttúrulegt umhverfi sitt þar sem fyrir eru villtir einstaklingar sömu tegundar."


Heimildir:
http://www.nrk.no/nyheter/distrikt/nrk_trondelag/1.7895984
http://www.nina.no/archive/nina/PppBasePdf/temahefte/036.pdf
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC1691531/pdf/14667333.pdf
https://asf.ca/escapes-feared-after-winter-storms-in-ns.html
http://preventescape.eu/?page_id=15
http://news.stv.tv/north/293415-salmon-cages-lost-at-sea-slowly-being-retrieved/



No comments:

Post a Comment