Jul 8, 2013

Arnarvatnsheiðin 1-7 júlí


Kom niður af heiði í gær (sunnudag 7/7) eftir vikulanga útilegu.  Ævintýralegur túr að ekki sé meira sagt og sjálfsagt verður þetta einn eftirminnilegasti veiðitúr ævi minnar.  Samt held ég að þetta verði fyrsti og eini túrinn minn með útlendinga þarna upp - til þess þykja mér alltof margir aðrir hlutir áhugaverðari....
Raggi Hólm var með mér, hann skrifaði um þetta í Flugufréttum, ég gef honum orðið:






-------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Það má fixa allt
"Allt er þegar þrennt er" dugir engan veginn til að lýsa óförum Flugufrétta á Arnarvatnsheiði í síðustu viku. "Sjaldan er ein báran stök" væri miklu betur við hæfi. Eftir fimm daga við gefandi veiðiskap á heiðinni var eins og andi heiðarinnar hefði fengið nóg af gestunum og síðasti sólarhringurinn var ein allsherjar hrakför.

Ég hafði verið beðinn að keyra sjö Svía upp eftir og sýna þeim vötnin. Þetta voru flinkir veiðimenn sem þurftu enga tilsögn en þeir þurftu góðan jeppa og bílstjóra sem vissi til vegar. Ég var hann og fékk félaga minn með mér svo hægt væri að flytja mannskapinn á milli vatna á tveimur bílum.
Kunningjar mínir í bænum ráku upp stór eyru þegar ég sagðist vera að fara aftur á heiðina og í þetta skiptið til að veiða í sex daga. Ég var nýkominn niður af heiðinni eftir þriggja daga ferð með vinum mínum þar sem við höfðum mestan tímann húkt inni í kofa við spil og spjall því úti ólmaðist vindurinn og vötnin voru öll kolmórauð og óveiðanleg.
En ég fór upp eftir aftur og komst fljótlega að raun um að þetta var góður hópur Svía sem kunni að bjarga sér úti í náttúrunni við frumstæðar aðstæður. Þeir nutu þess að veiða fiska, skella þeim beint í reykofninn og éta á staðnum, eða setja þá í poka með salti, sykri og dilli, velta þeim þar í um sólarhring og borða síðan sem grafinn. Við höfðum dálítið af lambaketi með okkur á heiðina en aðalfæðan var fiskur úr vötnunum og af honum var gnótt að hafa þegar viðraði til veiða.

Heitreykt bleikja og egg við Mordísarvatn.
Þetta voru engir aukvisar. Þeir gerðu kröfur, vildu fara sem víðast og sjá sem mest af Arnarvatnsheiði. Og alls staðar veiddu þeir vel. Við skröltum um slóða sem varla voru annað en urð og grjót, fórum upp í Hlíðarvatn þar sem bleikjan tók í yfirborðinu, veiddum djúpt í Mordísarvatni og átum fisk á bakkanum, mokuðum upp úr Stóralóni og Arnarvatni litla, fengum nokkra í Arfavötnum, Úlfsvatni og Hávaðavötnum. Krummavatn og Núpstjörn gáfu okkur hins vegar ekkert.
Það voru fimm sólarhringar liðnir af túr sem ég taldi heldur of langan þegar við vorum að koma tröllaveginn ofan úr Hlíðarvatni.
Jeppinn skrölti yfir grjótin og eitt augnablik gleymdi ég mér þegar ég var að segja Svíanum í framsætinu frá því hvernig ég hefði lært að veiða á flugu. Það var bara eitt augnablik en einu augnabliki of mikið. Bíllinn sat fastur með hægra framhjólið ofan á stóru grjóti. Ég kíkti undir bílinn og sá að eitthvað var brotið. Égf hringdi í Snorra á Augastöðum, lýsti þessu sem var brotið og hann sagði að líklega væri það spyrnan; ég skyldi ekki hreyfa bílinn. Ég reyndi samt að mjaka bílnum ofan af steininum og þá datt drifskaftið ofan í svörðinn. Mér varð ljóst að við færum ekki lengra.
Félaginn sótti okkur á hinum jeppanum og færði heim í hús. Klukkan fjögur um nóttina kom Snorri ásamt bifvélavirkja úr Reykholti heim að kofanum við Úlfsvatn með brotna jeppann. Þeir voru búnir að gera við hann til bráðabirgða en bara rétt svo við kæmum honum til byggða.

Kátur Svíi með þrjá góða úr Stóralóni.
Það var þungt yfir mér daginn eftir. Félaginn sá um að selflytja Svíana niður í Stóralón en ég vildi hafa kyrrð þennan síðasta dag á heiðinni. Leið eins og það væri eitthvert óheillaský yfir okkur í þessari ferð, var hræddur um að eitthvað meira og verra ætti eftir að gerast. Svíarnir sögðu: "It's ok, Ragnar. You can fix a car, but you can't fix people." Þeir reyndu að hughreysta mig. Þetta var jú bara bíll. Síðdegis komu þeir heim með nokkra fiska í miklu slagvirði. Það var dumbungur, rok og kalt regn.

Það er fagurt við vötnin þegar lægir.
Einn Svíanna kom til mín í litla húsið við Úlfsvatn og bað mig að koma upp í stóra húsið að borða og hrista af mér slenið. Ég sagðist skyldu fylgja honum. Steig eitt skref fram af pallinum út í forina og sá Svíann missa fótanna og detta á bakið í grjótið. Ég horfði til himins, fórnaði höndum og hrópaði "dísus!" Þegar við félagarnir reyndum að reisa Svíann við kom í ljós að annar fóturinn sneri öfugt; maðurinn var ökklabrotinn. Nú var ekkert annað í stöðunni en að hringja í 112.
Við bjuggum um manninn í skjóli við litla húsið, fengum leiðbeiningar í gegnum neyðarlínuna um hvernig skyldi búa um hann, reyndum að halda á honum hita og skömmu síðar kom þyrlan með miklum gusti og hvelli. Húfur og hattar fuku af mönnum, þeir sem næst stóðu þurftu að halda sér í eitthvað til að fjúka ekki út í Úlfsvatn, þvílíkur var stormurinn sem spaðar þyrlunnar ollu

Þyrlan hefur sig á loft við Úlfsvatn.
Skömmu síðar hóf þyrlan sig á loft með brotna Svíann innanborðs. "You can fix a car, but you can't fix people" söng í höfði mér og allir vorum við úrvinda, það var úr okkur allur vindur.
"Ragnar, can you come here," heyrði ég þá kallað og jú, sjaldan er ein báran stök. Gusturinn frá þyrlunni hafði feykt upp hurðinni á stóra húsinu svo hún var hér um bil af hjörum og engin leið að loka henni. Við bösluðum við það góða stund að gera við hurðina en svo hringdi ég í Snorra á Augastöðum til að segja honum frá öllu þessu tjóni. Hann sagði að við skyldum reyna að loka dyrunum eins og við gætum og setja svo bara gaskút fyrir, hann kæmi kvöldið eftir til að laga þetta. Í leiðinni sagði hann mér að bifvélavirkinn sem hafði verið með honum á heiðinni nóttina áður hefði brotið á sér handarbakið við viðgerðina á jeppanum okkar og væri nú í gipsi. "You can fix a car, but you can't fix people."
Þá loksins eftir 24 stundir af hrakförum fór landið að rísa þegar smiður að nafni Kristleifur kom óvænt í bíltúr upp að Úlfsvatni til að vitja vina sinna sem hann hélt að væru í tjaldi við Arnarvatn litla. Og þegar við spurðum hvort hann væri nokkuð með verkfærakassa í bílnum þá varð hann hissa á svipinn og sagði: "Jú, það vill nú reyndar svo til!" Síðan gerði hann við hurðina og þáði rjúkandi bleikjusúpu með Svíunum að launum.
Við komum niður af heiðinni síðasta sunnudag reynslunni ríkari. Síðasti sólarhringurinn hafði verið eins og í Víetnam. Þyrlur, hlaupandi menn með sjúkrabörur, gustur, kuldi, fjúkandi hattar, brotnir bílar, brotið fólk - eitthvað sem hægt var að fixa og eitthvað sem mun lifa í minningu okkar allra um aldur og ævi. Frá því við lögðum á heiðina hafði mér fundist eins og það væri að ofgera okkur að ætla að vera þar í næstum sjö sólarhringa - það var eins og andi heiðarinnar væri mér sammála. Síðasta sólarhringinn hafði hann reynt að hrekja okkur aftur til byggða.
Sjaldan er ein báran stök en við fengum þó 70 gullfallega silunga í túrnum. Um það bil 40 var sleppt aftur, 25 étnir á staðnum og 5 hafðir til byggða.
Það er búið að fixa bílinn. Ökklabrotni Svíinn er á batavegi og handarbrotni bifvélavirkinn er kominn aftur til starfa. 
You can fix cars and you CAN fix people.
-rhr
-------------------------------------------------------------------------------------------------------------


Þess má geta að Græni tarfurinn minn þurfti einnig allmikillar aðhlynningar við, eftir þetta ævintýr.  Verkstæðiskostnað uppá tæp 150 þ. má rekja beint eða óbeint til þessarar farar.  Sjálfur var ég alltættur eftir þetta - hefði gjarnan viðjað fá meira en sólarhring til að ná áttum fyrir næsta túr...:)

No comments:

Post a Comment