May 4, 2016

Málþing LS og LV um neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur

Á dögunum var haldið málþing um neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur. Málþingið var á vegum stangveiðimanna og veiðiréttarhafa. Þar voru flutt fjögur erindi - og má sjá þau öll hér.

Á málþinginu var eftirfarandi ályktun samþykkt:
"Fundur í Háskólabíó 14. apríl 2016 mótmælir harðlega áformum um stóraukið laxeldi í sjókvíum í fjörðum á Íslandi.
Reynslan sýnir að lax- og silungsstofnum er mikil hætta búin fari svo fram sem horfir.
Fundurinn hvetur alla til aðgerða á grundvelli laga, stjórnmála og náttúruverndar gegn þessari alvarlegu vá sem nú steðjar að íslenskum veiðiám.
Fundurinn vekur athygli á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem flest eru að stórum hluta í eigu erlendra aðila, hafa nú fengið þessa auðlind hafsins afhenta í formi ókeypis laxeldisleyfa og án mikils endurgjalds.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að láta viðkvæma náttúru landsins njóta vafans þegar ákvarðanir eru teknar um rekstrarleyfi fyrirtækjanna."



Ég er ánægður með þessa ályktun og vona að allir sem hafa vilja og nennu til, beiti sér af fullum þunga gegn áformum um sjókvíaeldi á aðfluttum stofnum við Íslandsstrendur.
Hagsmunaðilar, félagasamtök, náttúruverndarsinnar, ábyrgir vísindamenn, rannsóknarstofnanir, veiðifélög og stangveiðifélög verða að mótmæla..
Svo verður hvert og eitt okkar að láta í sér heyra.
Ábyrgðin er okkar.
Notið hvert tækifæri sem gefst til að útskýra alvarleika málsins fyrir þingmanninum ykkar....
Það er hrikalegt umhverfisslys í uppsiglingu - eða eigum við kannski frekar að segja umhverfishryðjuverk?










No comments:

Post a Comment