May 18, 2020

Silungur og sjókvíar


Hugmyndir um umfangsmikið sjókvíaeldi í Eyjafirði hafa verið í umræðunni síðustu misserin.  Í flestum tilvikum er um að ræða eldi á norskættuðum laxi í opnum sjókvíum. Nú eru á teikniborðinu 3 stöðvar með samtals 
14 kvíaþyrpingum. 
Laxeldinu fylgir mjög skætt sníkjudýr; Laxalúsin.  Henni fjölgar gríðarlega við kvíaeldið og þaðan dreifist hún svo á villta laxfiska.  Mjög sterkir sjóbleikjustofnar hafa lengi einkennt Eyjafjörð,  þótt síðustu ár hafi þeir farið minnkandi. Norskar rannsóknir benda til að laxalús úr sjókvíaeldi geti valdið allt að 50% afföllum á sjóbleikju og sjóbirtingi.   Slíkt gæti hreinlega reynst banabiti sjóbleikjustofna Eyjafjarðar.

Í þessari grein verður fjallað um áhrif laxalúsar frá sjókvíum á silungsstofna,  áform um eldi í Eyjafirði reifuð og fjallað um stöðu og horfur sjóbleikjunnar í firðinum.


May 4, 2016

Málþing LS og LV um neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur

Á dögunum var haldið málþing um neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur. Málþingið var á vegum stangveiðimanna og veiðiréttarhafa. Þar voru flutt fjögur erindi - og má sjá þau öll hér.

Á málþinginu var eftirfarandi ályktun samþykkt:
"Fundur í Háskólabíó 14. apríl 2016 mótmælir harðlega áformum um stóraukið laxeldi í sjókvíum í fjörðum á Íslandi.
Reynslan sýnir að lax- og silungsstofnum er mikil hætta búin fari svo fram sem horfir.
Fundurinn hvetur alla til aðgerða á grundvelli laga, stjórnmála og náttúruverndar gegn þessari alvarlegu vá sem nú steðjar að íslenskum veiðiám.
Fundurinn vekur athygli á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem flest eru að stórum hluta í eigu erlendra aðila, hafa nú fengið þessa auðlind hafsins afhenta í formi ókeypis laxeldisleyfa og án mikils endurgjalds.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að láta viðkvæma náttúru landsins njóta vafans þegar ákvarðanir eru teknar um rekstrarleyfi fyrirtækjanna."

Feb 2, 2016

Umfang og áhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis á norskum laxi á Eyjafirði #2

Enn streyma inn umsóknir fyrir sjókvíeldi,  fyrirtækin virðast ætla að tryggja sér svæði, hvað sem svo verður.  Baráttan gegn sjókvíaeldi á norskum laxi verður því mikilvægari eftir því sem fyrirhugað umfang eykst.  Slæm reynsla annarra þjóða af sjókvíeldinu á laxi er staðreynd.   Opinberum aðilum ber að hafa þá reynslu í huga þegar umsóknir eru metnar.
Tók saman nokkra punkta um sennilega áhrif af 8.000 tonna framleiðslustöð í Eyjfirði og hélt nokkur erindi fyrir smábátasjómenn og stangveiðifólk á síðasta ári.  Hér er lesningin, ásamt heimildum,  og hér fyrir neðan er svo myndband um samantektina:



Oct 30, 2015

Klukkan tifar...

Stjórnsýslan kýtir við verktaka um verndum áttræðrar grjóthleðslu, en ypptir öxlum yfir örlögum 11.000 ára gamallra náttúrlegra fiskistofna - ferskvatnsfiskunum sem þó eru frumbyggjar þessa lands.
Eldi á sjö milljón fiskum af framandi stofnum í sjókvíum fær grænt ljós í  skýrslu um mat á umhverfisáhrifum.  Skýrslu sem er unnin af teiknistofu, þar sem einu starfsmennirnir eru landslagsarkítekt og jarðfræðingur...  (það kemur reyndar ekki fram hver vann þessa skýrslu)
Frestur til að gera athugasemdir við græna ljósið er til 2. des.
Landssamband Stangveiðifélaganna er með aðalfund í kvöld - vonandi verður þar samþykkt aðgerðaáætlun til verndar íslenskum ferskvatnsfiskum.  Fátt annað er í stöðunni en að Landsambandið ráði sér starfsmann til að vinna í þessu brýna hagsmunamáli.  Og nú þarf að vinna hratt.

Jun 4, 2015

Vatnsmikið veiðisumar..?

Vatnsmagn í veiðiám er ein af stóru breytunum í veiðinni.  Það er ýmist of eða van og breytileiki milli ára getur verið ótrúlega mikill.  Snjómagn í upphafi sumars er forðabúrið og ræður miklu um framvinduna.  Hitastig og úrkoma ráða einnig miklu - enda bráðnar snjór víst ekki í kulda og rigning hefur yfirleitt bein áhrif á vatnsmagn.
Ekki man ég hvernig vatnabúskapurinn 2014 var sv-lands en hér nyrðra var leysing fram í ágúst. Það bitnaði á veiðinni.
Til að spá fyrir um vatnasumarið 2015 náði ég mér í kort sem sýnir mismun á snjómagni í byrjun maí á milli áranna 2015 og 2014.

Apr 24, 2015

Hrollvekjandi hugmyndir

Það setti að mér hroll þegar ég sá um daginn, auglýsinguna um fyrirhugað eldi á norskættuðum laxi í sjókvíum á Eyjafirði, rétt norðan Hörgárósa.

Af því mér varð hugsað til allrar bleikjunnar og sjóbirtingsins sem lúsin í eldinu dræpi.  Hún dræpi kannski ekki alla bleikjuna og birtingin en sennilega allt að helming.  (Ef marka má norskar rannsóknir)

Og ekki var skárra að sjá fyrir sér þessa 2.400 norsku eldislaxar sem nær örugglega slyppu árlega og syntu í nær- og fjærliggjandi ár. (Norskar rannsóknir!)

Apr 9, 2015

Umfang og áhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis á norskum laxi á Eyjafirði

Fyrirhugað er umfangsmikið sjókvíaeldi á norskum laxi á Eyjafirði, rétt norðan Hörgárósa 1.  Þar á að setja í kvíar 2,4 milljónir laxaseiða af norskum stofni og ala í tvö og hálft ár.  Af þessum 2,4 milljónum laxa má reikna með að 2.400 sleppi árlega og syndi í nær- og fjærliggjandi ár. Til samanburðar var meðalveiðin á laxi í Fnjóska síðustu 10 árin tæpir 500 laxar.
Svæðið sem um ræðir er 3 km langt og 1,2 km breitt, eða um 3,5 ferkílómetrar, það eru rúm 5% af flatar-máli Eyjafjarðar frá Hjalteyri að ósi Eyjafjarðarár.  Það er svæði á stærð við Pollinn frá Leirubrú og norður í slipp.  Frá fyrirhugaðri staðsetningu eru aðeins 2 km að ósi Hörgár, 6 km að Fnjóská og 15 km að Eyjafjarðará.   

Mar 19, 2015

Eyjafjarðará í mars

Sá nokkra fallega fiska í Eyjafjarðaránni í dag - þeir voru bara hressir í blíðunni - myndbandið má sjá hér neðar.  Áin íslaus og láglendi snjólaust. Það verða varla vandræði með vatnavexti fram eftir þessu sumri...
Unaðslegt.
Hlakka til...

Erindið var annars að huga að hentugri staðsetningu fyrir fiskiteljara sem setja á í ánna.   Staðsetningin ræðst af stórum hluta af markmiðinu með teljara.  Brýnast er að meta veiðiálag á bleikju - meðan það er ekki þekkt og stofninn (líklega) í lágmarki er erfitt að réttlæta afföll á bleikju vegna veiða.

Mar 1, 2015

Vér mótmælum sjókvíeldi á norskum laxi við Ísland..

Laugardaginn 28. febrúar var haldinn fundur á Hótel KEA á Akureyri um framkomnar umsóknir um opið sjókvíaeldi á Eyjafirði. Til fundarins var boðað af NASF, Verndarsjóði villtra laxastofna, veiðiréttareigendum, stangveiðifélögum og bátasjómönnum sem hafa viðurværi sitt af veiðum í firðinum.

Framsögumenn á fundinum voru þeir Orri Vigfússon, formaður NASF og Jón Helgi Björnsson formaður Veiðifélags Laxár í Aðaldal.

Feb 10, 2015

Um stangveiðar hér og þar....


Stangveiðar / sportveiðar eru risastórt fyrirbæri á heimsvísu - árlegur fjöldi stangveiddra fiska er um 50 milljarðar og þar af væru 17 milljarðar drepnir eða um 1/3.  Það þýðir þá að miklum meirihluta er sleppt aftur.  Umfang stangveiðar er orðið slíkt að þær svara til á milli 15-35% af heildarafla heimsins.
Á ýmsum ferskvatns- og strandsvæðum hafa stangveiðar tekið nytjaveiðar yfir og eru stangveiðar nú orðnar aðal ástæða veiðidauða hjá mörgum tegundum sem eru eða voru nytjastofnar.
Stangveiðar eru mikilvæg afþreying fyrir fólk víða um heim og haga gríðarlega víðtæk efnahagsleg áhrif, bæði svæðisbundin og á landsvísu.  Gott aðgengi að stangveiði er hluti af búsetutengdum lífsgæðum,  rétt einsog aðgengi að skíðasvæði eða sundlaug, góðum samgöngum, menntun og heilbrigðisþjónustu...!

Meira um þetta hér neðar....