Feb 18, 2013

Vetrarstarf veiðimanna - Bleikjan....

Var með erindi hjá stangveiðifélögunum í kvöld - um bleikju.  Fin mæting og góðar umræður - takk kærlega fyrir komuna.  Einhverjir höfðu á orði að þeir hefðu ekki séð nógu vel glærunar - hér eru þær allar....







Feb 14, 2013

Ránfiskur fær nýja merkingu..

Ránfiskur fær nýja merkingu þegar maður skoðar   þessar Leirgeddur veiða sér dúfur til matar...
Leirgeddur eða Catfish er ferskvatnsfiskur sem hefur náttúrulega útbreiðslu um allan heim.  Nokkuð vinsæll í eldi enda ekki kröfuharður á umhverfi sitt.  Stundum uppnefndur drullupollafiskur og er bragðið víst eftir þvi - sel það þó ekki dýrara...
Getur orðið hrikalega stór og víða vinsæll í sportveiði. Nokkra þeirra stærstu má sjá hér.

Feb 6, 2013

Laxadeilan mikla?

Fiskistofa hefur tekið saman tölur um lax sem meðafla á flotvörpuveiðum árin 2010-2012
Þar kemur fram að lax er stundum meðafli en magnið er tiltölulega lítið (0-6 laxar/tonnafla) og afar breytilegt á milli ára.  Miðað við 3 laxa á hver veidd þúsund tonn og veiðina í flotvörpu síðustu 20 árin, hefur fjöldi laxa verið 1.000-3.000. og miðað við 6 fiska í tonninu þá gæti heildarmagn á laxi sem kemur í flottroll á ári farið í allt að 6.000 fiskar.
Það munar nú um minna... .
Athygli vekur hver uppruni laxins er - en hann virðist að mestu leyti vera norskur og írskur.

Svavar Hávarðsson skrifaði fína úttekt á þessu í fréttablaðið í den..

Feb 5, 2013

MS-inngangur

umþaðbileinhvernveginnsvona gæti inngangurinn í ritgerðinni minni litið út..

Lax- og silungur hefur verið nytjaður hér á landi frá landnámi, fyrst sem matarkista en síðustu áratugi sem stangveiðisport.  Óhætt er að flokka þessa fiskistofna sem verulega verðmæta náttúruauðlind enda voru bein, óbein og afleidd áhrif stangveiða á laxi og silungi á þjóðarbúið metin árið 2004 á allt að 9 milljarða (Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 2004) og aftur árið 2009 á 15 milljarða (Sigurbergur Steinsson, 2010). 

Feb 4, 2013

Ólafsfjarðará

Í tilefni þess að Raggi Hólm var með kynningu á Ólafsfjarðará og að SVAK opnaði á sölu leyfa í ánna, tók ég saman smá tölfræði um veiðina í Óló...

Það er svosem fátt sem kemur mér á óvart í þeirri samantekt.  Besta veiðin er frá opnun og fram í miðjan ágúst - og reyndar mesta sóknin.
Veiðin í ánni hefur heldur verið á niðurleið síðustu árin,  þó kom athyglisverður kippur í veiðina í september 2011.  Reyndar má segja að septemberdagarnir séu vanmetnir í ánni - nánast ekkert selst af þeim,  þó eru þeir hræódýrir og yfirleitt gefa þessir fáu dagar sem þó eru nýttir nokkra veiði.  En tölfræðina má sjá hérneðar..

Jan 20, 2013

Vetrarstarf veiðifélaga


Afhverju er Vetrarstarf SVAK á mánudagskvöldum?

Þessi spurning kom á spjallþræði á fésinu.  Sennilega býr fleira að baki spurningunni en akkúrat hvaða dag vikunnar þetta er haldið.

Þar sem ég var formaður SVAK þegar vetrarstarfið fór af stað þá get ég skýrt hvaða pælingar bjuggu að baki þegar þetta fyrirkomulag var hannað -
Förum aðeins yfir þetta....

Jan 19, 2013

Kiwi Nymphing

Á meðan veiðimenn á eyju í norðanverðu Atlantshafi  ylja sér við minningar frá síðasta sumri og láta sig dreyma um það næsta, eru veiðimenn á eyju í sunnanverðu Kyrrahafi með stangirnar sínar kengbognar.
Downunder, hinum megin á hnettinum, í speglaðri árstíð, með sólína hæst á lofti í norðri og öfugan Coriolis-snúning, eru menn að veiðum núna.  Þar veiða menn sama fiskinn, með svipuðum aðferðum og við sem erum hérna réttumegin.  Urriði er þarna í öllum ám og vötnum, veiddur á þurrflugur, strímera og púpur - Kiwi Nymphing kalla þeir það, ekki ósvipað Czech Nymphing.

Dec 11, 2012

Innrás urriðans

Eyjafjarðará blómstrar sem sjóbirtingsá enda veiddust 620 urriðar eða sjóbirtingar þar í sumar.  Sá stærsti var 6,5 kg og 82 cm , fjölmargir voru á bilinu 2-4 kg.  Þetta er langbesta urriðaveiði í skráðri sögu árinnar.
Hinsvegar fækkar bleikjunni enn og veiddust innan við 500 bleikjur í sumar.
Hér neðar setti ég nokkur gröf með veiðitölum sumarsins - athugið að um bráðabirgðatölur er að ræða.
Myndirnar tala...


Oct 11, 2012

Laxá og Mývatn í hættu..?


Urriðasvæðin í Laxá ofan Brúarfossa eru meðal þeirra gjöfulustu, fallegustu og skemmtilegustu í víðri veröld.  Það vita þeir sem til þekkja.  Neðar, þar sem af mikilli hógværð heitir Aðaldalur, er svo laxasvæðið, einnig margrómað og eftirsótt.   Í Mývatni sjálfu, var áður fyrr mjög stór bleikjustofn, en er reyndar í sögulegri lægð um þessar mundir.
Frjósemi Mývatns er ein megin forsenda urriðaparadísarinnar.  Raunar er Mývatn algerlega einstakt á heimsvísu, eitt frjósamasta vatn á norðurhveli jarðar,  byggir á samspili efnasamsetningar og hitastigs lindarvatnsins sem í það streymir. Styrkur uppleystra efna (les. áburður fyrir ljóstillífandi þörunga) vex með hækkandi hitastigi lindarvatnsins.  Heitustu lindirnar og því mesti áburðurinn, eru við Ytri flóa og er það vatn jafnfram komið skemmst að - mögulega viðkvæmustu uppspretturnar.   Í heild sinni er þetta viðkvæmt vistkerfi enda verndað með lögum.

Og nú eru blikur á lofti,  áratugs gamlar hugmyndir um jarðvarmavirkjun við Bjarnarflag, svipaða Hellisheiðarvirkjun, eru á döfinni. Virkjunin verður nánast á bökkum Mývatns, þeim megin sem megnið af vatnsupptökusvæði Mývatns er - og næst Ytri flóa.

Og hvað með það?  Jú, höfum í huga að virkjunin er í aðeins 3-4 km fjarlægð frá Mývatni og því er áhættan af virkjuninni þríþætt:

Uppdæling:   Heitu vatni er dælt úr iðrum jarðar - það getur haft áhrif á grunnvatnsstöðu, hitastig lindarvatns og  efnasamsetningu þess.  Þetta lindarvatn er uppspretta og áburður Mývatns.

Niðurdæling:  Áætlað er að dæla niður vatni, þegar búið er að taka mesta hitann úr því.  Tekst það?  Hvernig?  myndast lón?  verður yfirborðsaffall til Mývatns?  Hversu mengað er það vatn?  Hver er reynslan af Hellisheiðarvirkjun í þessu tilliti?

Loftmengun frá virkjuninni verður sennilega umtalsverð - meða annars Brennisteinsvetni - NB þetta er í 4 km fjarlægð frá Mývatni - Hvaða áhrif hefur slík loftmengun á Mývatn?

Þarna er mögulega í uppsiglingu skelfilegt umhverfisslys.   Þetta er ekki bara svona upphrópun - heldur er þarna á ferðinni sannarlega og mikil áhætta.