Nov 26, 2014

Áttu bleikju í frystinum?


Kæri veiðimaður
Áttu nokkuð bleikju í frystinum?  
Ef svo er þá langar mig að biðja þig um smá aðstoð.

Þannig er að til rannsókna vantar mig talsvert af bleikjusýnum, helst bleikjuhausum. 
Ef þú átt bleikju og ert til í að aðstoða mig, hafðu þá endilega samband, ég mæti á svæðið og tek sýnið.  Það þarf ekki að afþíða fiskinn - við tökum hann bara úr frystinum í fimm mínútur og ég tek sýnið.
Ég get ekkert greitt fyrir aðstoðina, framlag til vísinda og einlægt þakklæti verða að duga:)

May 19, 2014

Veiða og sleppa á bleikju

Ritgerðin mín loksins fullgerð - hér er hún í fullri lengd (pdf) fyrir áhugasama og aðra - og sem veftímarit hér.
Þetta er búin að vera mikið og lærdómsríkt ferðalag - sex ár frá brottfarardegi, með ýmsum áningarstöðum.  Ég er stoltur af gripnum, stundaði þessi vísindi af forvitni, sönnum áhuga og virðingu fyrir viðfangsefninu.  Prófgráðan var tækið til að geta framkvæmt þetta en ekki markmiðið í sjálfu sér.  Ég er þakklátur öllum þeim sem tóku þátt á einn eða annan hátt.  Sérstakar þakkir fá efasemdarmenn veiða og sleppa aðferðarinnar - því ef enginn hefði efinn verið, þá hefði mér ekki dottið þetta til hugar.
Næst er það doktorsnámið og meiri bleikjurannsóknir.  Ef maður ætlar að vera veiðinörd þá er best að fara alla leið....
Set útdráttinn á næstu síðu.

Apr 23, 2014

Óstjórn stangveiða


Vorboðar veiðimanna eru margir - einn slíkur eru fréttir af stórurriðadrápi í Þingvallavatni ásamt stóryrtum og misvel-rökstuddum upphrópunum með eða á móti. Þarna er nú samt á ferðinni klassískt dæmi um nytjar á sameiginlegri en takmarkaðri auðlind.  Í raun skólabókardæmi sem fjallað er um bæði útfrá auðlindahagfræði og leikjafræði.  Í stuttu máli segir sagan okkur að ef nytjum á slíkum auðlindum er ekki stýrt, þá verður gengið að þeim þar til ekkert er eftir.   Með öðrum orðum - græðgi mannsins klárar auðlindina. Aðeins er hægt að koma í veg fyrir það með því að setja á sameiginlega stýringu á nýtingu auðlindarinnar, byggða á bestu fáanlegu upplýsingum.  

Jan 27, 2014

Master of science....

Erlendur Steinar Friðriksson heldur meistaravörn sína föstudaginn 31. janúar 2014 kl. 13:00 í fyrirlestrarsal M102 í aðalbyggingu HA, Miðborg. Verkefni Erlends Steinars, er 90 ECTS verkefni til meistaragráðu í auðlindafræðum og nefnist Veiða og sleppa sem veiðistjórnun á bleikju í Eyjafjarðará.

Dec 6, 2013

Konfektkassi íslenskra veiðibókmennta?

Fékk það skemmtilega verkefni að lesa veiðibók og spjalla um hana í sjónvarpi.  Um var að ræða tvíbindið: "Stangveiðar á Íslandi og Íslensk vatnabók" eftir  Sölva Björn Sigurðarson.  Þarna er á ferðinni virkilega metnaðarfullt verk sem m.a. var tilnefnt til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013.  
Bækurnar eru skyldulesning og -eign allra áhugamanna um stangveiðar, ferskvatnsfiska og menningu því tengda.  Skyldulesning af því um er að ræða mikinn og áhugaverðan fróðleik og skyldueign því að verðlauna ber svona útgáfu með því að kaupa hana.

Hér neðar má sjá álit mitt á bókunum.

Jul 8, 2013

Arnarvatnsheiðin 1-7 júlí


Kom niður af heiði í gær (sunnudag 7/7) eftir vikulanga útilegu.  Ævintýralegur túr að ekki sé meira sagt og sjálfsagt verður þetta einn eftirminnilegasti veiðitúr ævi minnar.  Samt held ég að þetta verði fyrsti og eini túrinn minn með útlendinga þarna upp - til þess þykja mér alltof margir aðrir hlutir áhugaverðari....
Raggi Hólm var með mér, hann skrifaði um þetta í Flugufréttum, ég gef honum orðið:




Jun 10, 2013

Veiðisumarið mitt

Veiðisumarið hjá mér fer yfirleitt frekar rólega af stað. Megnið af veiðinni minni er í júli og ágúst en september svo í 3ja sæti.  Það sætir engum tíðindum enda sníð ég tímabilið að göngum bleikju og vatnafari.

Er lítið að sperra mig í apríl, enda eiginlega ennþá vetur, stundum er góð tíð, íslitlar ár og góðir dagar - apríl þetta árið var mjög rólegur hjá mér, tvær bryggjuferðir á Sigló var allt og sumt.

Maí getur gefið fallega daga, vorflóðin ekki hafin og spennandi að kíkka í ósableikju eða staðbundin vorurriða eða á bryggjurnar.  Þetta árið urðu bryggjunar fyrir valinu.

Jun 7, 2013

Veiðistjórnun á bleikju

Ég var að velta fyrir mér veiðistjórnun á bleikju á Íslandi.  Tók saman mynd og töflu yfir helstu bleikjuveiðisvæðin frá 2007 - ásamt yfirliti yfir veiðistjórnun eða öllu heldur kvóta á bleikju. Veiðitölurnar eru úr skýrslum veiðimálstofnunar en upplýsingar um veiðistjórnun af ýmsum veiðisíðum.
Í töflunni kemur fram að aðeins 6 af þessum svæðum eru með kvóta á bleikjunni.  Hugsanlega er ég með rangar upplýsingar um einhver svæðin - það væri vel þegið ef menn vita betur að þeir láti mig.  696-5464 eða erlendursteinar(at)gmail.com.

May 16, 2013

Eru selir ógn eða æði...?

Skjáskot af akv.is
Mál dagsins er frétt um seladráp við ósa Eyjafjarðarár. Sjá hér:
Löngum hefur tíðkast að skjóta seli við ósa áa - jafnt í Eyjafirði sem annarsstaðar,  menn líta á selinn sem ógn við fiskistofna ánna...
Stóra spurningin er þá hvort selur sé ógn eða æði....
Étur hann fisk eða flugu?
Heimildum ber ekki saman...

Ég hef heyrt í heitapottinum að aldrei hafi fundist selur með ummerki um silung í mallakút...
Erlingur á selsetrinu veit hugsanlega allt um það - 
Við kannski spurjum hann...

Það er hinsvegar rétt að halda því til haga að stofnsstærð Kampsels er talin vera um 1.000.000 dýr.

Bleikjustofninn í Eyjafjarðará er hinsvegar á gjörgæslu, Veiði þar hefur farið úr 3500 fiskum, þegar mest var, í rúmlega 500 fiska á síðasta ári.  Stofnstærðin gæti því verið komin niður í 1-10 þúsund fiskar.  Í ljósi þessa hefur verið tekin upp veiðistjórnun með aflakvóta.

Það er alveg ljóst að ef selur ætlar að éta bleikjuna mína þá finnst mér hann í órétti...

May 15, 2013

Veiðiskóli SVAK 2013

Þá er dagskrá veiðskólans í sumar klár:
  • 10. bekkingar frá 1. júní
  • Unglinganámskeið, 
  • Veiðinámskeið fyrir byrjendur 
  • Andstreymisveiði 
  • Lærðu á ánna
  • Einhendunámskeið 
  • Tvíhendunámskeið 
Skráning er á elli(a)svak.is